Samkomulag um fjölgun meðferðarrýma í Krýsuvík

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Nýlega var undirritað samkomulag um fjölgun rýma og aukinn stuðning fyrir einstaklinga á meðferðarheimilinu Krýsuvík. Í fyrra voru að jafnaði 22 einstaklingar í meðferð þar en með auknum stuðningi fjölgar rýmunum í 29.

Krýsuvíkursamtökin hafa staðið fyrir framkvæmdum og endurbótum á húsnæði Krýsuvíkur í þeim tilgangi að fjölga rýmum og auka aðgengi að þjónustunni.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, ásamt fulltrúa Krýsuvíkursamtakana, hafa þegar undirritað samkomulagið en það kveður á um aukið aðgengi að þjónustunni og fjölgun meðferðarplássa um þriðjung, ásamt því að efla faglegt meðferðarstarf í Krýsuvík.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins

Samkomulagið sem nú hefur verið undirritað er í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030 um tímanlegt aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu og er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við skaða af völdum vímuefna, þar með talið ópíóða sem samþykktar voru í ríkisstjórn í maí 2023. 

Krýsuvíkursamtökin voru stofnuð árið 1986 og hafa veitt langtímameðferð fyrir fólk með vímuefnavanda samfleytt frá árinu 1989. Meðferðarheimilið Krýsuvík gegnir mikilvægu hlutverki í meðferð einstaklinga með alvarlegan áfengis- og vímuefnavanda og undanfarin tvö ár hefur þjónusta meðferðarheimilisins verið efld m.a. með því að bjóða upp á áfallameðferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert