Segir ekki farið með rétt mál í frétt RÚV

Erfitt getur verið að fá tíma hjá lækni á heilsugæslustöðinni
Erfitt getur verið að fá tíma hjá lækni á heilsugæslustöðinni Ljósmynd/Colourbox

Mikillar óánægju hefur gætt vegna frétta af því að síðdegisvaktir á heilsugæslu verði ekki lengur í boði.

Í viðtali við mbl. is sagði Nanna Sigríður Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslunni, ekki rétt farið mál í frétt RÚV í gær um að síðdegisvaktir væru aflagðar.

Hið rétta væri að áfram yrði opið á heilsugæslustöðvum milli kl. 8-17. Hins vegar væri það stefna Heilsugæslunnar að beina veikari skjólstæðingum inn á dagvinnutíma milli kl. 8-16.

Heilsugæslan yrði samt sem áður áfram opin til kl. 17 fyrir bráð veikindi eins og verið hefur.

Áfram síðdegisvaktir á um helmingi heilsugæslustöðva

Nanna bætti því við að áfram verði síðdegisvakt á um það bil helmingi heilsugæslustöðva höfuðborgarsvæðisins, eða í um 8 af 15 stöðvum. Fólk geti fengið upplýsingar um það á sinni heilsugæslustöð hvar væri opið.

Hún sagði að það væri oft erfitt aðgengi að heilsugæslu yfir sumartímann vegna skorts á starfsfólki og sérfræðingum; það væru færri læknar starfandi á heilsugæslunni á sumrin vegna sumarleyfa. Hinsvegar væri ekki um sparnaðaraðgerð að ræða nú.

Vilja beina eftirliti yfir á vetrartímann

Þau vilji fyrst og fremst með þessu fyrirkomulagi forgangsraða bráðum tilfellum. Nanna sagðist vita til þess að fólk hafi haft áhyggjur af því að erfitt sé að bóka tíma fyrir önnur en bráð veikindi en að það séu gjarnan sjúklingar sem eru í reglubundnu eftirliti kannski 1-2 sinnum ári og þau vilji beina því eftirliti frekar yfir á vetrartímann þegar heilsugæslan er betur mönnuð.

Þannig á það að vera auðveldara að nálgast eftirlit á langvinnum sjúkdómum utan sumartímans. Það sé ekki endilega nauðsynlegt að sinna því eftirliti á sumrin, bætti Nanna við.

Framboð á dagvaktinni hefur aukist

Aðspurð um það hvort það yrði auðveldara að fá tíma hjá heimilislæknum nú sagði hún að framboð á dagvaktinni hefði aukist á daginn og það gengi betur fyrir bráð erindi að fá tíma.

Fólk sem annars færi á síðdegisvaktina hringi núna í síma 1700 með erindi sitt eða fái að ræða við vakthafandi hjúkrunarfræðing á sinni heilsugæslustöð, sem metur hvort skjólstæðingar þurfi að koma á heilsugæsluna.

Nanna Sigríður Kristinsdóttir.
Nanna Sigríður Kristinsdóttir. Ljósmynd/aðsend

Veikari skjólstæðingar fái bestu þjónustuna á dagvöktum

Loks sagði Nanna að þessar breytingar hjá Heilsugæslunni væru ekki til þess gerðar að auka álag á Læknavaktina, alls ekki.

Heldur væri fyrst og fremst verið að beina veikari skjólstæðingum á dagvaktir og fá þannig sem besta þjónustu fyrir þá einstaklinga fyrr og betur.

„Við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast. Við erum í sífelldri endurskoðun. Þannig að við fylgjumst vel með hvernig þetta gengur í sumar og svo tökum við stöðuna aftur að hausti hvernig við höldum áfram með síðdegisvaktir,“ sagði Nanna að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert