„Það þarf að fara að rannsaka hvað er að gerast“

Mikill urgur er í mótorhjólasamfélaginu vegna biksblæðingar á vegum landsins.
Mikill urgur er í mótorhjólasamfélaginu vegna biksblæðingar á vegum landsins. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er bara stórhættulegt og við erum bara svo heppin að það hafi ekki orðið alvarlegt slys vegna þessa svo ég viti. Þetta er bara tifandi tímasprengja ef menn ætla að haga sér svona endalaust,” segir Hlífar Þorsteinsson, sem er virkur í félagi Harley-eigenda á Íslandi, um biksblæðingar á vegum landsins.  

Hlífar var einnig í rekstri rútufyrirtækisins Ís-Travel á Reyðarfirði og þekkir því þjóðvegi landsins vel. Um helgina varaði Vegagerðin við bikblæðingum á veginum um Fagradal fyrir austan og var hámarkshraði þar tekinn niður í 50 km/klst.

Í samtali við mbl.is svarar Hlífar játandi er hann er spurður hvort það veki upp ótta við að keyra mótorhjól á vegum þar sem mikil blæðing er. Segir hann þá mikinn urg vera í mótorhjólaheiminum. 

„Það er bara satt að segja mjög mikill urgur í mótorhjólaheiminum út af ástandi veganna og varð náttúrulega mikil hræðsla eftir Kjalarnesslysið og núna er þetta eiginlega allt á öðrum endanum út af því hvernig landið liggur allt saman undir.” 

Fréttu af óæskilegum efnum í malbikinu

Að sögn Hlífars situr hann í hópi sem hittir reglulega starfsmenn frá Vegagerðinni. Segist hann hafa frétt af því í fyrra að notast væri við óæskileg efni við gerð malbiks sem Vegagerðin hafi svo neitað.  

„En það fóru nú samt í fyrrahaust á nýlögðum klæðningum eins og nærri Sauðárkrók - þar varð mikið tjón á ökutækjum. Svo er það bara að koma í ljós núna í sumar þegar það fer að hlýna í veðri að þessar athugasemdir sem okkur höfðu borist um efnin - þær hljóta að hafa átt við rök að styðjast af því að blæðingarnar hafa sennilega aldrei verið meiri heldur en í sumar og jafnvíða,” segir Hlífar og bætir við: 

„Það þarf að fara að rannsaka hvað er að gerast og stöðva að það gerist.” 

Mælirinn gjörsamlega fullur

Sveinn Sveinsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, sagði í samtali við mbl.is í gær að vegiromm við Fagradal hefði verið sandaður tvisvar í gær. Nefnir Hlífar að þegar stráð er sandi á veginn eftir biksblæðingu geti vegurinn orðið flugháll og erfiður fyrir keyrslu mótorhjóla og að loka hefði átt veginum fyrir mótorhjólum.   

„Þegar þetta blæðir svona þá er engin töfralausn til annað en að annaðhvort sópa klæðninguna í burtu eða að sanda. En í mínum huga þá þyrfti bara hreinlega að loka þessum vegi fyrir mótorhjólum og þeir þyrftu þá bara að vera með vagna til að taka hjólin sem koma og flytja þau yfir þennan hættulega kafla.” 

Nefnir Hlífar að öryggisráðshópur sem hann situr í hafi í gegnum tíðina átt í góðu samstarfi við Vegagerðina en nú sé hins vegar mælirinn gjörsamlega fullur. 

„Það hafa nú orðið aldeilis banaslysin á Íslandi þetta árið og alvarlega slasaðir í þvílíkum fjölda að ég skil ekki hvað mönnum leyfist að leika sér með líf og limi fólks með svona fíflagangi og útaf því er mjög mikill urgur í fólki. Þetta er í umræðu á meðal atvinnubílstjóra og mótorhjólafólks og það er eiginlega alveg sama hvar maður kemur.” 

Hlífar rak um tíma rútufyrirtækið ÍS-Travel á Reyðarfirði og er …
Hlífar rak um tíma rútufyrirtækið ÍS-Travel á Reyðarfirði og er í félagi Harley-eigenda á Íslandi. Ljósmynd/Hlífar Þorsteinsson

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert