Yfir 17 gráður fyrir klukkan sjö í morgun

Frá Borgarfirði eystri á sunnudag, þegar hiti fór yfir 25 …
Frá Borgarfirði eystri á sunnudag, þegar hiti fór yfir 25 gráður. mbl.is/Skúli Halldórsson

Mesti hiti landsins í morgun mældist í Bakkagerði á Borgarfirði eystri, um klukkan sjö árdegis, og náði þá rúmlega 17 gráðum.

Þetta vekur athygli því um klukkustund síðar var hitastig komið niður fyrir 12 gráður. 

Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir líklegast að hitasveiflan skýrist af því að vindur hafi dregið hlýtt loft niður úr háloftunum. 

„Oftast þegar svona hlýtt verður á þessum svæðum, eins og á Austfjörðum, þá verður vindur, ýmist til lengri eða skemmri tíma, sem dregur hlýtt loft niður úr háloftunum ef það blæs af fjöllum. Það er kannski líklegast að það hafi gerst þarna,“ segir Eiríkur og útskýrir að erfitt sé að staðfesta það þar sem Veðurstofan er einungis með hitamæli í Bakkagerði en ekki vindmæli. 

Eðlileg dægursveifla 

mbl.is greindi frá því í gær að hiti hefði hæst farið upp í 25,4 gráður í Bakka­gerði á sunnudag og sveiflast þannig um 25 gráður því að morgni sama dags mældist hiti á staðnum 0,4 gráður. Björn Sæv­ar Ein­ars­son, fag­stjóri flug­veðurþjón­ustu hjá Veðurstofunni, sagði þá að ekki væri algengt að hitasveiflur væru svona miklar sama daginn. 

Aðspurður segir Eiríkur hitasveifluna þó ekkert rosalega mikla miðað við árstíma, um dægursveiflu sé að ræða. Þá útskýrir hann að vegna þess hve há fjöllin eru suður af þá fái svæðið meiri tíma til að kólna yfir nóttina heldur en til dæmis inni á Héraði.

„Það var heiðskírt þarna, eða bjartviðri, í nótt. Þá verður kæling vegna útgeislunar mjög mikil um leið og sólin sest,“ segir Eiríkur og bætir við:

„Þetta gerist oft fyrripart sumars í svona björtu veðri.“

Þannig að þetta er kannski mjög eðlilegt? 

„Já, í rauninni. Þetta er það. Af því að fyrripart sumars er jörðin ekki orðin nógu heit, það tekur langan tíma fyrir hana að hitna. Hún er heitust einhvern tímann seinnipart júlí og þá verður dægursveiflan minni því þá kólnar ekki jafn mikið yfir nóttina.“

Veður­vef­ur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert