Átján verslanir Kringlunnar enn lokaðar

Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar.
Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar. mbl.is/Eyþór Árnason

Starfsemin í Kringlunni er hægt og bítandi að færast í betra horf eftir brunann sem varð í þaki verslunarmiðstöðvarinnar 15. júní. 

Gríðarlegt tjón varð af völdum vatns og reyks í kjölfar eldsvoðans og hleypur tjónið á hundruðum milljóna króna, að sögn Baldvinu Snælaugsdóttur, markaðsstjóra Kringlunnar.

„Staðan er merkilega góð miðað við hvernig ástandið var fyrst eftir brunann. Við erum að glíma við afleiðingarnar enda varð mikið vatnstjón á báðum hæðum fyrir neðan þetta svæði sem brann,“ segir Baldvina í samtali við mbl.is.

Hún segir að búið sé að opna níu verslanir á ný þar sem búið er að endurnýja vörur en þar hafi orðið skemmdir tengdar vörum en ekki húsnæði.

Jákvæðir punktar á hverjum degi 

„Það eru jákvæðir punktar á hverjum einasta degi og til að mynda í dag opnaði Nespresso „Pop-up verslun“ í göngugötunni,“ segir Baldvina.

Iðnaðarmenn að störfum í Kringlunni í síðasta mánuði.
Iðnaðarmenn að störfum í Kringlunni í síðasta mánuði. mbl.is/Eyþór

Baldvina bætir við að ennþá séu 18 verslanir sem verða lokaðar eitthvað áfram og af þeim sé um tíu verslanir sem eru það mikið skemmdar að þær opni ekki fyrr en í haust. Í þeim verslunum eyðilögðust gólf, veggir og loft en hinar verslanirnar eru í vöruvandræðum.

„Það voru allir búnir að taka inn sumarvörurnar og það er ekkert hægt að smella fingrum og fá þær aftur.

Ánægð með aðsóknina

Kringlan var lokuð í fimm daga eftir brunann og opnaði aftur 20. júní. Spurð hvernig aðsóknin hafi verið eftir opnunina segir hún:

„Við erum mjög sátt við aðsóknina þrátt fyrir þetta högg. Hún hefur verið um 90 prósent ef við berum saman tölur miðað við sama tíma og í fyrra, sem er mjög jákvætt. Fastagestirnir voru strax mættir á kaffihúsin og á veitingastaðina og nýi afþreyingarstaðurinn Oche er að draga marga mjög marga að og er vinsæll,“ segir Baldvina.

Hún nefnir að tryggingarfélögin séu enn að meta tjónið sem verslanirnar í Kringlunni urðu fyrir.

„Þetta er flókið ferli. Reitir eiga stóran hluta byggingarinnar og svo eru aðrir eigendur. Rekstaraðilarnir eru með sín eigin tryggingarfélög og það tekur langan tíma að vinna úr þessu. Við vitum að þetta tjón er talið í hundruðum milljóna króna en ekki tugum.“

Eins og í bæjarstjórn í þorpi 

Baldvina segir að starfsfólk Kringlunnar sé farið að brosa aðeins meira en út í annað og að samstaðan hafi verið ótrúlega góð á þessum erfiða tíma.

„Samstaðan hefur verið einstök og mér líður alltaf eins og að ég vinni í bæjarstjórn í þorpi. Kringlusamfélagið er ótrúlega sterkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert