Gagnrýnir skort á umgjörð og eftirliti

Vinakot hefur verið starfrækt síðan 2012 og rekur þrjú heimili …
Vinakot hefur verið starfrækt síðan 2012 og rekur þrjú heimili sem hýsa ungmenni með margþættan vanda. mbl.is/Eggert

Umgjörð og eftirlit skortir með búsetuúrræðunum Vinakoti og Klettabæ. Aðkomu faglærðs starfsfólks að umönnun barnanna, sem eiga við fjölþættan vanda, er þá einnig ábótavant.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef umboðsmanns Alþingis í dag.

Embættið heimsótti einkareknu búsetuúrræðin, sem eru fyrir börn á aldrinum 13 til 18 ára, á grundvelli eftirlits með stöðum þar sem fólk er eða kann að vera frelsissvipt. Athugunin fór fram á síðasta ári. 

Börnin skuli fá þá þjónustu sem þau eiga rétt á

Fram kemur að við eftirlit með Klettabæ og Vinakoti hafi komið í ljós að fagfólk hafði takmarkaða aðkomu að umönnun barnanna frá degi til dags. Var þá bent á að huga þyrfti að því að börnin fengju þá sérhæfðu og þverfaglegu þjónustu sem þau ættu rétt á.

Í kjölfar athugunar umboðsmanns hafa verið birtar tvær heimsóknarskýrslur er varða starfsemi búsetuúrræðanna. Ábendingar og tilmæli umboðsmanns til þeirra og stjórnvalda eru um margt þau sömu í skýrslu Vinakots og skýrslu Klettabæjar.

Þjónustunotendur Klettabæjar og Vinakots eru einkum börn og ungmenni með margþættan vanda. Er þá átt við alvarlegan hegðunarvanda, geðraskanir, þroskaraskanir og eftir atvikum vímuefnavanda eða sjálfsskaðandi hegðun.

Minna á ábyrgð sveitarfélaga

Þjónustan við börnin sem umboðsmaður heimsótti er á ábyrgð sveitarfélaga en í tilvikum Klettabæjar og Vinakots hefur einkaaðilum verið falið að veita þjónustuna fyrir hönd sveitarfélaganna á grundvelli samnings.

Í skýrslunum tveimur er tilmælum beint til sveitarfélaga að tryggja að ávallt sé ljóst á hvaða grundvelli barn vistast á tilteknu einkareknu búsetuúrræði, að í úrræðinu sé vistunargrundvöllurinn ljós og að tilhögun vistunarinnar taki mið af þeim reglum sem af honum leiða.

Umboðsmaður Alþingis er til húsa við Templarasund en embættið heimsótti …
Umboðsmaður Alþingis er til húsa við Templarasund en embættið heimsótti búsetuúrræðin tvö í apríl og júní á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Karlmenn stundum einir á vakt með stúlku

Gagnvart Vinakoti er bent á að huga þurfi að öryggi bæði barnanna og starfsmanna. Kemur þá fram að í sumum tilvikum hafi þar aðeins verið gert ráð fyrir einum starfsmanni á vakt, jafnvel óreyndum.

Þá séu þar að auki dæmi um að karlkyns starfsmenn séu einir á vakt með stúlku. Í því sambandi er tilmælum beint til Vinakots að með tilliti til öryggis og sérþarfa stúlkna skuli í það minnsta ein kona vera á vakt með stúlkum.

Flest börnin búi við félagslega einangrun

Hvað varðar Klettabæ bendir umboðsmaður á að meta þurfi vægi öryggissjónarmiða gagnvart skaðsemi félagslegrar einangrunar.

Flest börn sem þar voru heimsótt bjuggu við töluverða einangrun af því tagi. Gátu þau þá fæst átt samskipti við vini sína í gegnum samfélagsmiðla eða hitt þá án þess að starfsmenn Klettabæjar væru viðstaddir.

Skoða þarf viðbrögð við reglubrotum

Er þá einnig bent á að kortleggja þurfi hvaða athafnir og ákvarðanir gagnvart börnunum feli í sér þvingun eða nauðung í skilningi barnaverndarlaga eða laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Tilmælin byggja á atvikum þar sem starfsmenn Klettabæjar hafa talið sig þurfa grípa inn í aðstæður til að gæta öryggis barnanna sjálfra, starfsmanna eða annarra.

Í framhaldi af því er tilmælum beint til Klettabæjar að sjá til þess að börnin séu upplýst um þær reglur sem gilda hverju sinni í búsetuúrræðunum og mögulegar afleiðingar af því að brjóta þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert