„Í pytti sem við vorum búin að sjá fyrir“

Margrét segir ekki hægt að sinna eftirfylgni allra langvinnra sjúkdóma …
Margrét segir ekki hægt að sinna eftirfylgni allra langvinnra sjúkdóma einungis á veturna. Ljósmynd/Colourbox

Margrét Ólafía Tómasdóttir, formaður Félags íslenskra heimilislækna, segir fyrirkomulag síðdegisvakta á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa breyst þegar kórónuveirufaraldurinn gekk yfir. Þá hafi verið lögð aukin áhersla á vaktþjónustu bráðra erinda á dagvinnutíma og fyrirkomulagið ekki gengið til baka í kjölfar heimsfaraldursins.

„Þetta er í raun engin skyndileg breyting núna,“ útskýrir hún, en mbl.is greindi frá því í fyrradag að mikillar óánægju hafi gætt vegna frétta af því að síðdegisvaktir á heilsugæslu yrðu ekki lengur í boði á tilteknum heilsugæslustöðvum.  

Nauðsynlegt að fylgja áhrifunum eftir 

Margrét segir fyrirkomulagið fyrst og fremst hugsað með það að markmiði að forgangsraða þjónustuþegum inn á vaktirnar. Það sé gert með því að fá fólk til að hringja í 1700 og fá bókaðan tíma. Þá segir hún fyrirkomulagið ekki alls staðar eins og áréttir að einkareknu heilsugæslustöðvarnar séu til að mynda enn þá með opna síðdegisvakt. 

„Þannig að í rauninni eru kannski flestir á einhvern hátt að reyna að finna leiðir til að ná að þjónusta það sem þarf, á tímum þar sem er svolítil mannekla.“ 

Er umrætt fyrirkomulag betri leið til þess? 

„Þetta er tilraun. Hvort þetta sé betri leið eða ekki það er kannski eitthvað sem við þurfum að fylgja eftir,“ svarar Margrét og bætir við: 

„Tilraunir til breytinga eru tilgangslausar ef maður fylgir ekki eftir áhrifum breytinganna. Það þarf að keyra út þjónustukannanir og kanna upplifun skjólstæðinga á breytingunum. Auk þess þarf að kanna upplifun læknanna og starfsfólks heilsugæslustöðvanna á álagi og þeirri þjónustu sem þeir eru að veita, upp á hvort þetta borgi sig eða ekki.“

Eftirfylgni á sumrin nauðsynleg fyrir suma 

Auk frétta af því að síðdegisvaktir heilsugæslu yrðu ekki í boði lengur á öllum heilsugæslustöðvum sagði frá því í frétt mbl.is í fyrradag að sjúklingar sem væru í reglubundnu eftirliti, kannski 1–2 á ári, væru beðnir um að sækja það eftirlit yfir vetrartímann þegar heilsugæslan væri betur mönnuð. 

Spurð hvort heilsugæslulæknar væru sammála því að beina reglubundnu eftirliti yfir á vetrartímann, og hvort nauðsynlegt væri að sinna umræddu eftirliti líka á sumrin, svarar Margrét: 

„Að sjálfsögðu. Sumir sjúkdómar eru þannig að það þarf líka að fylgja þeim eftir á sumrin, þótt það séu langvinnir sjúkdómar. Til dæmis þurfa þeir sem eru að glíma við langvinn andleg veikindi jafn mikið á þjónustunni að halda á sumrin og á veturna.“

Það sé síðan eftirlit með öðrum sjúkdómum, eins og blóðþrýstingseftirlit og sykursýkiseftirlit, sem Margrét segir ekki skipta öllu máli hvenær árs sé framkvæmt. Svo lengi sem fólk mæti til eftirfylgni einu sinni á ári. 

Margrét segir um að ræða augljósa kjaraskerðingu fyrir sérnámslækna.
Margrét segir um að ræða augljósa kjaraskerðingu fyrir sérnámslækna. mbl.is/Sigurður Bogi

„Skynsamleg ráðstöfun í kannski í ófullkomnum aðstæðum“

„Þannig að aftur, það er í rauninni bara verið að koma til móts við hvernig eigi að haga bókunum og mæta því sem við þurfum að vera að sinna eins vel og hægt er á tímum þar sem er mjög fátt starfsfólk. Það er ekkert nýtt vandamál. Það er svo sem eitthvað sem við höfum þurft að gera á hverju sumri í tengslum við lögboðin sumarfrí.“

Þannig að þetta er kannski að einhverju leyti bara skynsamleg ráðstöfun?

„Að vissu leyti. Skynsamleg ráðstöfun í kannski í ófullkomnum aðstæðum. Af því að það sem er hrópandi í þessu, og við höfum verið að tala um í allan vetur, er skortur á starfsfólki. Bæði læknum og hjúkrunarfræðingum inni á heilsugæslustöðvunum. Það hefur verið vandamál yfir vetrartímann, en það er enn þá meira á sumrin þegar allir þurfa að fá sitt sumarfrí,“ svarar Margrét og bætir við:

„Svo sést þetta enn betur núna, kannski betur heldur en nokkurn tímann áður, af því að við erum í þessari svona dýpstu mönnunarlægð.“ 

Sérnámið aldrei verið stærra

Af hverju stafar þessi djúpa mönnunarlægð? 

„Vandamálið er í rauninni tvíþætt. Í fyrsta lagi eru stórir hópar heimilislækna nýlega komnir á aldur, þeir sem voru að byggja upp heilsugæsluna á Íslandi, þeir eru svona milli sjötugs og áttræðs núna þannig að þeir eru í rauninni nýlega hættir vinnu. Síðan voru lægðir í nýmönnun heimilislækna frá kannski 1990-2000/2010. Þannig að þeir sem eru svona á efri aldri núna, yfir miðjum aldri, þeir eru mjög fáir.“

Hún segir þó horfa til betri tíma meðal heilsugæslulækna því nú séu að koma inn töluvert margir ungir læknar auk sérnámslækna. „Þannig að við erum í rauninni í pytti sem við vorum búin að sjá fyrir í áratugi að myndi verða akkúrat á þessum tíma, áður en við náum að koma inn nógu mörgum.“ 

„Sérnámið okkar hefur aldrei verið stærra, við erum með yfir 100 manns í sérnámi í heimilislækningum og starfandi sérfræðingar á landsvísu eru um 220, þannig að ef okkur gengur að halda sérnáminu svona stóru þá er von á mun bjartari tímum eftir svona fimm til tíu ár.“ 

Nýmönnun heimilislækninga var mjög lítil yfir langt tímabil.
Nýmönnun heimilislækninga var mjög lítil yfir langt tímabil. Ljósmynd/Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Allir sammála um að það þurfi að breyta

Spurð hvort breytingin á fyrirkomulagi síðdegisvakta sé gerð í samráði við heilsugæslulækna og hvort læknar séu almennt sáttir við fyrirkomulagið svarar Margrét: 

„Ég held að engar breytingar séu þannig að allir séu sáttir, en ég held að allir séu sammála um að það þurfi að breyta.“

Þá segir hún mismunandi hvernig heilsugæslur hafi farið að til að breyta þjónustunni og reyna þannig að draga úr því sem gæti kallast „óþarfa þjónusta, eða þjónusta af litlum gæðum“. 

Hún segir flókið að áætla hvernig nákvæmlega eigi að ná þeim árangri og því sé mikilvægt að endurmeta ákvörðunina og fylgjast með áhrifum breytinganna. „Til þess að geta þá snúið við og gert eitthvað annað ef það sem við erum að gera er ekki að virka.“ 

Augljós skerðing fyrir sérnámslækna 

Fari svo að ákveðið verði að fara þessa leið og afnema með öllu síðdegisvaktir á heilsugæslum segir Margrét mikilvægt að huga að kjaramálum starfsfólks. Hvort sem um er að ræða breytingar sem leiða til kjaraskerðinga, aukins álags eða lengri vinnutíma.

„Allt þetta eru þættir sem myndu að sjálfsögðu valda óánægju á meðal lækna,“ segir hún en bætir við allt séu þetta þættir sem eigi eftir að skoða. Hún tekur þó sérstaklega fram að skerðing á síðdegisvöktum yrði augljós kjaraskerðing fyrir sérnámslækna sem reiða sig margir á yfirvinnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert