Sjálfstæðismenn ánægðastir með ríkisstjórnina

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einungis 3,6% landsmanna eru almennt mjög ánægð með störf ríkisstjórnarinnar á sama tíma og 56,3% eru almennt fremur eða mjög óánægð með störfin.

Þetta kemur fram í nýrri könn­un Maskínu um viðhorf til ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. 

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru ánægðastir með störf ríkisstjórnarinnar, en 51% þeirra sögðust ánægð með störf ríkisstjórnarinnar og 13% óánægð.

Kjósendur Sósíalistaflokksins eru hvað óánægðastir með störf ríkisstjórnarinnar, eða 90% þeirra.

Ánægja eykst milli ársfjórðunga 

Séu niðurstöður könnunarinnar skoðaðar út frá því hvort svarendur kjósi ríkisstjórnarflokkana eða stjórnarandstöðuflokkana má sjá að 75% kjósenda stjórnarandstöðuflokkanna eru óánægð með störf ríkisstjórnarinnar og 5% ánægð. 

Á sama tíma eru 45% kjósenda ríkisstjórnarflokkanna ánægð með störf ríkisstjórnarinnar en 16% óánægð.

Sé þróunin skoðuð eftir ársfjórðungum má sjá að óánægja með störf ríkisstjórnarinnar fór niður um tvö prósentustig frá fyrsta ársfjórðungi ársins til annars ársfjórðungs. Á sama tíma jókst ánægja um eitt prósentustig. 

Píratar ánægðastir með störf stjórnarandstöðunnar 

Hvað ánægju með störf stjórnarandstöðunnar varðar má sjá að ánægja eykst um tvö prósentustig milli ársfjórðunga á meðan óánægja minnkar um tvö prósentustig.

Eru 12% svarenda þannig mjög eða fremur ánægð með störf stjórnarandstöðunnar á meðan 39,3% svarenda eru mjög eða fremur óánægð með störfin. 

Kjósendur Pírata eru hvað ánægðastir með störf stjórnarandstöðunnar, eða 20,5% þeirra, á meðan einungis 2,7% kjósenda Sósíalistaflokksins sögðust ánægð með störf stjórnarandstöðunnar. 

Kjósendur Sósíalistaflokksins voru óánægðastir með störf stjórnarandstöðunnar, eða 54,3%. Fæstir kjósendur Samfylkingarinnar voru ósáttir við störfin, eða einungis 24,6%. 

Könn­un­in fór fram frá apríl til júní og voru svarendur 7.798 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert