„Skelfingardagurinn bjargaðist“

Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri hefur staðið vaktina á Ísafjarðarhöfn frá …
Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri hefur staðið vaktina á Ísafjarðarhöfn frá 1. janúar 2023. Á þeim tíma hefur aðsókn skemmtiferðaskipa til bæjarins stóraukist. mbl.is/Agnar

Veðurguðirnir komu Ísafjarðarhöfn til bjargar þegar í stefndi að rúmlega níu þúsund farþegar skemmtiferðaskipa ættu að sækja bæinn heim í fyrramálið. Vegna óveðurs við strendur Grænlands var hægt að færa skipakomur um nokkra daga, sem er hafnarstjóranum mikill léttir.

Blaðamenn mbl.is eru á Ísafirði, þar sem stríður straumur skemmtiferðaskipa á leið að höfn bæjarins. Nær ómögulegt er að verða ekki var við ferðamenn á götum Ísafjarðarbæjar og á veitingahúsum heyrast töluð hin ýmsu tungumál.

Hilmar Kristjánsson Lyngmo hafnarstjóri stendur vaktina á Ísafjarðarhöfn. Hann hefur gert það frá upphafi árs 2023 og segir að sitt eina og hálfa starfsár hafi vissulega verið viðburðaríkt, enda hefur aðsókn skemmtiferðaskipa að bænum stóraukist á skömmum tíma.

Hin tröllvöxnu skemmtiferðaskip Viking Star og Clebrity Apex gnæfðu yfir …
Hin tröllvöxnu skemmtiferðaskip Viking Star og Clebrity Apex gnæfðu yfir Ísafjarðarbæ í dag. Alls lentu fimm skip við höfnina í dag, miðvikudag. mbl.is/Agnar

Stefndi í níu þúsund farþega í fyrramálið

Í dag lentu fimm skemmtiferðaskip við Ísafjarðarhöfn, m.a. skip National Geographic og skipin Celebrity Apex og Viking Star.

„Þetta er mesti fjöldi skipa á einum degi, en ekki farþegafjöldi. Það eru fimm þúsund farþegar,“ segir Hilmar hafnarstjóri, sem bauð blaðamönnum upp á skrifstofu Ísafjarðarhafnar.

„En stærsti dagurinn sem mér sýnist að verði í sumar er sunnudagurinn næsti. Það verða um sjö þúsund [farþegar],“ bætir hafnarstjórinn við.

Hilmar segir að mestur fjöldi skipa komi í júlí og ágúst, um 50 komur í báðum mánuðum. Það stefndi aftur á móti í að níu þúsund farþegar myndu flæða inn í bæinn, en ekki verður af því.

„Það var búið að reyna síðan í desember að fá eitthvað af þeim [skipunum] til að færa sig til, en það bara gekk ekkert fyrr en veðrið hjálpaði. Það kom slæmt veður við Grænland og þá hætti skipið við að fara til Grænlands og þá gátum við breytt dagsetningunni,“ segir hann.

„Þannig að skelfingardagurinn bjargaðist.“

Þegar ferðamenn stigu á heilum fótum á land beið þeirra …
Þegar ferðamenn stigu á heilum fótum á land beið þeirra mergð af rútum og ferðaþjónum sem sýndu gestunum náttúruperlur Vestfjarða. mbl.is/Agnar

Hafnarstarfsemin skarast á

Aðspurður segir hann að mismunandi hafnarstarfsemi, t.d. skemmtiferðaskipin og starfsemi Eimskipa og Samskipa, skarist oft og tíðum á.

„En við höfum oft gott samstarf við þessi fyrirtæki og þeir hliðra til fyrir okkur. Svo reynum við að hliðra til gagnvart þeim.“

Hann tekur fram að nánast enginn strandveiðibátur landi á Ísafirði, strandveiðiútgerð Ísafjarðarbæjar sé að mestu á Þingeyri. Þó landa tveir togarar við höfnina.

Framkvæmdir standa við höfnina þar sem reisa á nýtt rútuplan. Og í framhaldinu á því verður nýtt móttökuhús byggt við höfnina, að sögn Hilmars. „Planið er að hanna húsið í ár og byrja á því næsta sumar.“

Þetta er gert til þess að skilja ferðaþjónustuna við höfnina frá annarri atvinnustarfsemi, til að koma í veg fyrir slysahættu. Hilmar bendir nefnilega á að ferðamenn geri sér ekki alltaf grein fyrir því þegar þeir eru á atvinnusvæði.

Nýr hafnarkantur var einnig nýlega var tekinn í notkun í fyrrasumar og hefur hann haft góð áhrif á starfsemi hafnarinnar.

„Það breytir bara mjög miklu. Bæði tekjulega séð – það eru meiri tekjur af skipi sem kemur upp að bryggju – svo líka fyrir skipafélögin; það er þægilegra, ef maður er með þrjú þúsund manns, að koma að bryggju,“ segir hann.

Annað hljóð í Ísfirðingum eftir að hámark var sett á farþegafjölda

Í gær kom skipið Norwegian Prima á Ísafjörð, sem er stærsta skemmtiferðaskipið í tonnum talið sem komið hefur til Ísafjarðar. Þá voru alls þrjú skip við höfnina en voru farþegarnir fleiri í gær heldur en í dag.

Samtals er búist við tæplega 200 skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar í sumar, svipað jafn mörgum og í fyrra ef ekki örlítið fleiri.

En í ár markaði Ísafjarðarbær stefnu um komu skemmtiferðaskipa og mega nú sjö þúsund farþegar að hámarki koma á dag.

Hvernig er hljóðið í bæjarbúum á svona dögum?

„Mjög misjafnt,“ svarar Hilmar. „En mér finnst reyndar eftir að umræðan um þessa stefnumótun [átti sér stað], og hún samþykkt og komin var þessi hámarkstala. Þá sé fólk sáttara við það að það sé komin stjórn á þessu.“

Hann segir að skipakomurnar geri mikið fyrir samfélagið á Ísafirði og það séu ekki aðeins ferðaþjónar sem græði á þeim.

„Burt séð frá höfninni, sem hefur mesta tekjur af þessu, þá eru líka rútufyrirtækin, bátafyrirtækin sem eru t.d. með hvalaskoðun […], guidar sem labba með fólk um bæinn, kajakferðir alls konar. Jafnvel fólk í tónlistarskólanum sem er að syngja í kirkjum í nágreninu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert