Verðmætum stolið af safni í Skagafirði

Festin er búin til úr smápeningum úr silfri, en tölur …
Festin er búin til úr smápeningum úr silfri, en tölur hafa verið máðar af peningunum og í staðinn grafið: „Á afmælisdaginn - Frá mömmu“. Úrið sjálft er af gerðinni OMEGA. Ljósmynd/Byggðasafn Skagfirðinga

Byggðasafn Skagfirðinga greindi frá því á Facebook-síðu sinni í dag að verðmætu vasaúri og úrfesti hafi verið stolið af safninu. 

Starfsmaður safnsins tók eftir því að vasaúrið var horfið úr einum sýningarskápnum. „Þetta er í raun og veru inni í einu herberginu í torfbænum í Glaumbæ þar sem við erum með gripi til sýnis í sýningaskápum,“ segir Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, í samtali við mbl.is. 

„Festin er búin til úr smápeningum úr silfri, en tölur hafa verið máðar af peningunum og í staðinn grafið: „Á afmælisdaginn - Frá mömmu“. Úrið sjálft er af gerðinni OMEGA,“ segir í tilkynningu á síðu safnsins. 

Ekki auðsótt að ræna úrinu

Hún segir að það sé ekki óþekkt að gripir hverfi af söfnum en í þessu tilviki var vasaúrið talið öruggt þar sem það var inni í sýningarskáp sem var þó ekki læstur beint. 

„Þetta er svona glerborð, þar sem það er gler sem að fellur svona ofan á skáp, maður þarf að nota hníf eða eitthvað til að spenna upp glerið, það hefur því miður einhver aðili lagt þetta á sig og farið með úrið,“ segir Berglind. 

Sýningarhirslan sem geymdi vasaúrið og úrfestina.
Sýningarhirslan sem geymdi vasaúrið og úrfestina. Ljósmynd/Hrönn Birgisdóttir

Nýlega stolið

Hafið þið einhverja hugmynd um hvenær þessu gæti hafa verið stolið?

„Í raun og veru ekki nákvæmlega, þetta hefur sennilega gerst í síðustu viku eða vikunni þar áður eða eitthvað slíkt,“ segir hún. 

Glaumbær er fjölsóttur ferðamannastaður og að sögn Berglindar heimsóttu tæplega 70.000 gestir bæinn í fyrra. 

Fylgjast með uppboðssíðum

Ástæðuna fyrir því að ákveðið var að gera frétt um þetta á síðum safnsins segir Berglind vera fyrst og fremst til að hvetja þann sem tók gripinna að sjá sóma sinn og skila úrinu og festinni aftur til safnsins.

„Einnig viljum við biðja almenning að hafa samband ef einhver býr yfir upplýsingum um hvar úrið og festin eru niðurkomin, til dæmis ef einver rekur augun í þetta á uppboðssíðum erlendis eða því um líkt, af því að það er grafið á það: „Á afmælisdaginn - Frá mömmu“, þá er það auðþekkt,“ segir hún. 

Í þessu tilviki var vasaúrið talið öruggt þar sem það …
Í þessu tilviki var vasaúrið talið öruggt þar sem það var inni í sýningarskáp sem var þó ekki læstur beint. Ljósmynd/Byggðasafn Skagfirðinga

Safngripir almennt ekki tryggðir

Hvað með tryggingar, er safnið tryggt fyrir tjóni eins og þessu?

„Nei, það er almennt ekki verið að tryggja safngripi af því að það er bara svolítið erfitt að setja einhverskonar verðmiða á þá, tjónið getur oft verið meira tilfinningalegt eða menningarsögulegt,“ segir Berglind. 

Stolnum safngripum áður verið skilað

Þó svo að sé almennt veik von um að stolnir safngripir skili sér aftur til síns heima, gerðist það þó fyrir tveimur árum í Glaumbæ.

Barst þá pakki með póststimpli frá Þýskalandi með þremur safngripum. Með pakkanum fylgdi engin nánari útskýring. Gripirnir höfðu verið skráðir safngripir á Byggðasafni Skagfirðinga fyrir 40 árum.

„Við vorum mjög hissa og ánægð með að þeir skiluðu sér til síns heima. Þannig við vonum bara að einhver sjái af sér í þetta skiptið og skili vasaúrinu og úrfestinni,“ segir Berglind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert