Dæmdur fyrir vörslu og dreifingu grófs barnakláms

Myndefnið var að finna á farsíma, spjaldtölvu og turntölvu mannsins.
Myndefnið var að finna á farsíma, spjaldtölvu og turntölvu mannsins. AFP

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt mann í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi meðal annars fyrir að hafa 416 ljósmyndir og 42 myndskeið sem sýna börn á klámfenginn hátt í vörslum sínum.

Manninum er gerð refsing fyrir tvö brot, kynferðisbrot annars vegar og vopnalagabrot hins vegar, en dómurinn var kveðinn upp 13. júní.

Barnaklám fundið við húsleit

Kynferðisbrot mannsins varða vörslu og dreifingu myndefnis sem sýnir börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt.

Myndefnið var handlagt af lögreglu við húsleit á heimili mannsins, en það var að finna í farsíma, spjald-, og turntölvu hans.

Mun maðurinn þá hafa dreift myndefni, sem sýnir börn í kynferðislegu ljósi, til ótilgreindra aðila í gegnum spjallsíður á netinu. 

Tvö sverð fundust á heimili mannsins

Brot mannsins á vopnalögum felur í sér vörslu þó nokkurra vopna á heimili sínu. Meðal þeirra vopna sem nefnd eru í dómi mannsins eru tvö sverð og stunguhnífur með 18,5 cm löngu blaði.

Játaði maðurinn sök á brotum sínum og mat dómurinn að ekki væri ástæða til að efa að játningin væri sannleikanum samkvæm.

Myndefnið sýndi grófa misnotkun barna

Fram kemur í dóminum að litið hafi verið til grófleika myndefnisins til þyngingar við ákvörðun refsingar mannsins.

Er þá gerð grein fyrir að efnið, sem maðurinn hafði í fórum sínum, sýni grófa kynferðislega misnotkun gagnvart ungum stúlkubörnum.

Aftur á móti hafi til málsbóta verið litið til þess að maðurinn á ekki sakaferil að baki, var samvinnuþýður við rannsókn hjá lögreglu, játaði brot sín skýlaust fyrir dómi og sýndi vilja til að bæta sig með aðstoð fagaðila.

Skilorðsbundið fangelsi og vopnin gerð upptæk

Var það dómur héraðsdóms að maðurinn skuli sæta fangelsi í fimmtán mánuði, en að fullnustu refsingarinnar skuli frestað og að hún verði felld niður að þremur árum liðnum, haldi hann almennu skilorði.

Þá skuli farsími, spjald- og turntölva mannsins vera gerð upptæk auk vopnanna sem hann hafði í vörslu sinni. Manninum er einnig gert að greiða 550.000 króna málsvarnarþóknun verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert