Fer fram á 6 til 8 ára dóm yfir Kourani

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Friðrik Smári Björgvinsson, aðstoðarsaksóknari hjá héraðssaksóknara, telur hæfilega refsingu Mohamad Kourani fyrir stunguárás í versluninni OK Market ásamt öðrum brotum, vera sex til átta ár. Þetta kom fram í málflutningi Friðriks í gær.

Hann segir brotavilja hins ákærða vera einbeittan í öllum tilvikum. Hann hafi ekki sýnt neina miskunn eftir brotin og haldi áfram að hóta brotaþolum.  

Aðalmeðferð í máli Kourani fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í gær. Samkvæmt frétt frá DV óskaði Kourani að yfirgefa réttarhöldin eftir að hafa gefið skýrslu fyrir dómi og var hann ekki viðstaddur er saksóknari flutti mál sitt.  

Neitar sök 

Mohamad Kourani er ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellda líkamsárás þegar hann gekk inn í verslun OK Market, á Hlíðarenda, og stakk tvo menn. 

Ásamt því er hann ákærður fyrir að hafa hótað lögreglumanni og fjölskyldu hans lífláti, henda vökva af óþekktum toga í andlit lögreglumanns og að hrækja í andlit annars lögreglumanns. Hann neitar sök í öllum ákæruliðum.  

Sendi fjölskyldu sína úr landi af ótta við Kourani

Í málflutningi saksóknara er bent til þess að Kourani hafi haft ásetning til að drepa annan brotaþola Mustafa Al Hamoodi, eiganda OK Market. Hann hafi hótað Mustafa og nánustu fjölskyldu hans lífláti árum saman og hafði lýst því við Mustafa hvernig hann ætlaði að fremja verknaðinn.

Þessar hótanir leiddu til þess að Mustafa ákvað að senda fjölskyldu sína úr landi, af ótta við að Kourani yrði við hótunum sínum.  

Verjandi Kourani fer hins vegar fram á að hann verði sýknaður af öllum ákæruliðum og til vara að mögulegur dómur verði skilorðsbundinn öllu leyti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert