Kemur heim úr hitanum á Spáni til að vinna

Óskar tekur við farþegum af MSC Poesiu og fer með …
Óskar tekur við farþegum af MSC Poesiu og fer með þá að Dynjanda og á Suðureyri. mbl.is/Agnar

Vertíðin á Vestfjörðum lítur í dag sumpart öðruvísi út en hún gerði á árum áður. Óskar Hansson rútubílsstjóri vinnur nú flesta daga við að aka erlendum ferðamönnum, sem koma til Ísafjarðar með skemmtiferðaskipi, um Vestfirðina. 

„Ég byrjaði að keyra rútu árið 1988,“ segir Óskar. Óskar er ættaður úr Reykjavík en býr á Spáni, þetta er fimmta sumarið sem hann keyrir um landið með ferðamenn. 

„Það er allt of heitt fyrir mig á Spáni núna, svo ég kem hingað heim til Íslands að vinna,“ segir Óskar. 

Hið tröllvaxna skemmtiferðaskip MSC Poesia myndi sennilega skyggja á Ísafjarðarbæ, …
Hið tröllvaxna skemmtiferðaskip MSC Poesia myndi sennilega skyggja á Ísafjarðarbæ, hefði verið sól. mbl.isAgnar

Veðrið fyrir norðan allt saman

Talið berst að sumrinu og Óskar hefur aðeins eitt um veðrið þetta sumarið að segja: „Þetta sumar er alveg fyrir norðan allt saman. Það hlýtur að fara hlýna,“ segir hann og greinilegt að honum þykir veðrið hingað til vera fyrir neðan allar hellur.

Þess má geta að í besta falli var sex gráðu hiti á Ísafirði nú í morgun og þokkaleg gola. 

Tvö stór skemmtiferðaskip eru á Ísafirði í dag, MSC Poesia er við Sundabakka og Zuierdam er á akkeri. Með þeim koma um fimm þúsund ferðamenn í heildina og verja þeir deginum á ferðalagi um Vestfirði. 

Óskar Hansson rútubílstjóri.
Óskar Hansson rútubílstjóri. mbl.is/Agnar

Fiskibollur á Suðureyri

Óskar tekur við farþegum af Poesia og fer með þá fyrst að Dynjanda þar sem stoppað er í um klukkustund. Síðan er ferðinni heitið á Suðureyri þar sem stoppað er í um tvo tíma og vinnslan skoðuð og hádegismatur snæddur. 

„Þau fá fiskibollur þar, og eru yfir sig hrifin. Hugsaðu þér, af fiskibollum, þau alveg elska þennan mat,“ segir Óskar. 

Óskar fer í 1-2 ferðir með ferðamenn á hverjum degi og vinnur flesta daga þó frídagar komi inn á milli.

Mikið líf er við höfnina á Ísafirði og í bænum sjálfum á morgnum sem þessum. Fjöldi rúta og langferðabifreiða er við höfnina og leiðsögumenn taka á móti ævintýraþyrstum ferðamönnum. 

Alls koma 18 skemmtiferðaskip af öllum stærðum og gerðum til Ísafjarðar í vikunni, sem er sú annasamasta í skipakomum í sumar. Í sumum skipanna eru allt að 3.400 farþegar en í minni skipunum eru á annað hundrað farþegar. 

Ferðaþjónar biður margir óðir eftir því að geta selt farþegum …
Ferðaþjónar biður margir óðir eftir því að geta selt farþegum ferðir. mbl.is/Agnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert