Tappar verða framvegis fastir á öllum fernum

Drykkjarílát og -umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra …
Drykkjarílát og -umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra af vökva verða að hafa tappa eða lok sem er áfast á meðan notkun vörunnar stendur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tappar á fernum Mjólkursamsölunnar verða framvegis fastir á fernunum en í gær tóku gildi nýjar reglur um áfasta tappa og lok á einota drykkjarílát og umbúðir úr plasti sem sett eru á markað hér á landi.

Um er að ræða innleiðingu á ákvæði frá Evrópuþinginu og ESB þar sem leitast er við að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið.

Drykkjarílát og -umbúðir úr plasti fyrir allt að þrjá lítra af vökva verða að hafa tappa eða lok sem er áfast á meðan notkun vörunnar stendur.

Mjólkursamsalan framleiðir fjölbreytt úrval vara sem þessi tilskipun hefur áhrif á og munu áfastir tappar taka við af þeim gömlu á næstu vikum og mánuðum.

Búið að undirbúa þetta vel

Spurð hvernig þessar breytingar leggist í Mjólkursamsöluna segir Halldóra Arnardóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri:

„Bara vel. Við erum búin að vita af því í nokkur ár að þetta stæði til og það er búið að undirbúa þetta vel með okkar birgjum,“ segir Halldóra. Hún segir að Mjólkursamsalan sé tilneydd til að fara í þessar breytingar vegna tilskipunar Evrópusambandsins.

Halldóra Arnardóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri hjá MS.
Halldóra Arnardóttir, markaðs- og vöruflokkastjóri hjá MS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margir hafa velt fyrir sér tilganginum með því að hafa áfasta tappa á stærri fernum. Halldóra segir að engin drykkjavara sé undanskilin. Þær verði allar að hafa áfastan tappa. Hún bendir á að fólk hafi val því það séu til fernur sem ekki eru með tappa.

Pirringur hjá nokkrum

Áföstu tapparnir hafa verið á markaði á minnstu mjólkurfernunum í nokkrar vikur. Aðspurð hvort Mjólkursamsölunni hafi borist kvartanir frá neytendum segir hún:

„Ekki beint kvartanir. Við höfum fengið mjög margar ábendingar þar sem fólk er að reyna að skilja af hverju er þetta gert. Við höfum fundið fyrir pirringi hjá nokkrum og það er alveg skiljanlegt því þetta er breyting. Það gerðist líka þegar papparörin tóku við af plaströrunum. Það tekur tíma fyrir fólk að venjast hlutunum.“

Hún segir að tapparnir séu þægilegir í notkun og aðeins þurfi að hlusta eftir litlum smelli áður en hellt eða drukkið er úr fernunni. Tapparnir eigi síðan að fylgja umbúðunum í endurvinnsluflokkun.

„Ef fólk fer ekki alveg niður með tappann og það heyrist ekki smellur þá er hann þvælast fyrir þegar hellt er úr fernunni.“

Erfitt að breyta út af vananum

„Við skiljum vel tilganganginn með þessu en á sama tíma skiljum við vel að fólk bæði upplifi að það skilji ekki af hverju það er verið að breyta þessu og finnist það óþægilegt. Við þekkjum það sem manneskjur að það er erfitt að breyta út af vananum,“ segir Birgitta Steingrímsdóttir, sérfræðingur í teymi hringrásarhagkerfis hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.

Birgitta segir að það sé mikil plastmengun í höfum heimsins og að hún eigi sér engin landamæri.

„Auðvitað eigum við að taka þátt í því að reyna að draga úr menguninni eins og við getum og höfum til þess alla burði.“

Plasttappar sjöunda algengasta ruslið

Hún segir að Ísland taki þátt í verkefni sem heitir Ospar sem snúist um það að vakta strendur í Evrópu og á hverju ári séu vaktaðar sjö strendur hringinn í kringum landið.

„Við höfum séð að til dæmis plasttappar eru mjög algengt rusl og er sjöunda algengasta ruslið sem við finnum. Plast verður alltaf eftir í náttúrunni og hlutir eins og plasttappar eru oft skærir að lit og eru litlir svo sjávardýr, fiskar og fuglar innbyrða þessa tappa og halda að þetta sé fæða,“ segir Birgitta.

Fuglar og önnur dýr inbyrða plasttappana
Fuglar og önnur dýr inbyrða plasttappana Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Hún segir að það sé gott að það sé verið að skylda framleiðendur til að festa tappana og það hafi verið gaman að sjá hversu íslenskir framleiðendur hafi tekið vel við sér og séu tilbúnir í þessar breytingar.

„Við erum spennt að sjá hvort þetta skili sér ekki í því að töppunum fækki í umhverfinu. Plast er frábært efni og ef það er notað rétt og því er komið í endurvinnslu þá er hægt að nota það aftur og aftur. Nú er löggjafinn að hjálpa okkur og beina okkur inn á rétta braut,“ segir Birgitta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert