Búast við að allir og ömmur þeirra mæti

Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar og Unnur Birna Björnsdóttir, tónlistarkona …
Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri hátíðarinnar og Unnur Birna Björnsdóttir, tónlistarkona og kærasta Sigurgeirs. Ljósmynd/Aðsend

„Það lítur út fyrir að allir og ömmur þeirra séu að fara mæta,“ segir Sigurgeir Skafti Flosason, framkvæmdastjóri Allt í blóma, í samtali við mbl.is, en hátíðin fer fram í fjórða skiptið um helgina. 

Hann segir að mikill fjöldi sé þegar kominn á staðinn en formleg dagskrá hefst í kvöld með pöbbkvissi á Skyrgerðinni og trúbador.

Á morgun, laugardag, hefst dagurinn á barnadagskrá og endar svo á stórtónleikum um kvöldið þar sem söngvarar á borð við Birgittu Haukdal, Stefán Hilmarsson, Siggu Beinteins og Pálma Gunnarsson stíga á stokk. Í kjölfarið verður fært sig yfir í tjaldið þar sem Sverrir Bergmann og Unnur Birna halda skemmtanahöldunum áfram. 

Lítið eftir að gistiplássi

Sigurgeir segir veðurspá helgarinnar vera góða en spáð er 16 til 18 gráðu hita á svæðinu. Þá segir hann að tjaldsvæðið í Hveragerði sé orðið fullt og lítið sé eftir af öðrum gistiplássum á svæðinu. 

„Tjaldvæðið er fullt, gróðurhúsið er fullt og ég held það séu kannski tvö herbergi laus á hótel Örk,“ segir Sigurgeir að lokum. 

Dagskrána má sjá í heild sinni á Facebook síðu hátíðarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert