Byrjuðu strax að efast um getu Bidens

Þórarinn Hjartarson, þáttastjórnandi hlaðvarpsins Einnar pælingar, segir að strax í kjölfar forsetakappræðna vestanhafs í síðustu viku hafi fólk byrjað að efast um getu sitjandi Bandaríkjaforseta til að sinna embættinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, mættust í kappræðum fyrir rúmlega viku síðan og var ljóst að frammistaða Bidens kom mörgum á óvart.

„Í þetta skiptið þá var eiginlega strax byrjað að ræða getu Bidens til þess að valda þessu hlutverki áfram,“ segir Þórarinn í nýjasta þætti Dagmála um viðbrögð álitsgjafa í kjölfar kappræðnanna.

Allt í járnum í Wisconsin

Í upphafi Dagmála fór blaðamaðurinn Hermann Nökkvi Gunnarsson stuttlega yfir stöðuna í baráttunni samkvæmt könnunum og þá með áherslu á svokölluð sveifluríki. Samkvæmt bandaríska stjórnmálamiðlinum Real Clear Politics hefur Donald Trump forskot í sex sveifluríkjum af sjö.

Trump leiðir í Nevada, Arizona, Georgíu, Michigan og Pennsylvaníu en þetta eru allt ríki sem Biden sigraði árið 2020. Forskot Trumps er mismikið og minnsta forskotið hefur hann í Michigan og Pennsylvaníu. 

Þá er allt í járnum í Wisconsin-ríki en þar mælast þeir báðir með 47,3% fylgi að meðaltali, samkvæmt Real Clear Politics. 

Þáttur helgaður forsetakosningunum

Þátturinn var helgaður komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum þann 5. nóvember.

Rætt var meðal annars við Þórarinn um það hvort að Joe Biden Bandaríkjaforseti verði frambjóðandi Demókrataflokksins, hvaða málefni séu mikilvægust kjósendum og þá hvort að tengsl séu á milli stjórnmálaástandsins í Evrópu og Bandaríkjunum.

Áskrifendur Morgunblaðsins geta nálgast þáttinn í heild sinni með að smella á hlekkinn hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert