EY og endurskoðandi bótaskyld upp á 114 milljónir

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rögnvaldi Dofra Péturssyni og BD30 ehf., áður Ernst & Young ehf., hefur verið gert að greiða þrotabúi Sameinaðs Sílikons hf. rúmar 114 milljónir í skaðabætur.

Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu í síðustu viku þar sem rétturinn komst að þessari niðurstöðu.

Ágreiningsatriði málsins lutu að hlutafjárhækkun félagsins Sameinaðs Sílikons ehf. í lok árs 2016. Þrotabúið höfðaði málið vegna þess að það taldi sérfræðiskýrslu sem Rögnvaldur vann í tengslum við hlutafjárhækkunina ekki hafa verið unna af nægilegri kostgæfni. Rögnvaldur var einn eigenda Ernst & Young ehf. 

Þrír aðrir dómar féllu á sama tíma sem lutu að aðkomu Rögnvaldar og Ernst & Young að málum Sameinaðs Sílikon og var Rögnvaldur sýknaður í öllum hinum dómunum. 

Heildarvirði félagsins allt að 496 milljónir

Félagið Sameinað Sílikon hf. var stofnað árið 2014 til að byggja og gangsetja kísilmálmverksmiðju í Helguvík í Reykjanesbæ. Félagið var í eigu félagsins United Silicon Holding B.V. Annar eigandi þess félags var félagið USI Holding B.V.

Í nóvember árið 2016 samþykktu hluthafar Sameinaðs Sílikons hf. að hækka hlutafé félagsins og var félaginu USI Holding B.V. heimilað að skrá sig fyrir 405 milljónum hlutum og greiða fyrir það með hlutafé í félaginu Geysi Capital ehf.

Rögnvaldur vann sérfræðiskýrslu í tengslum við þessar ráðstafanir. Virði Geysis Capital ehf. var metið af ráðgjafarsviði Ernst & Young ehf. á grundvelli leigusamnings um útleigu lóðar Geysis Capital ehf. að Stakksbraut 9 að teknu tilliti til áætlaðs rekstrarkostnaðar, skatta og hæfilegrar ávöxtunarkröfu.

Heildarvirði félagsins var metið á bilinu 4,7 til 5,2 milljónir evra og miðað við gengi evru þegar skýrslan var unnin væru það 438 til 496 milljónir króna. Eðlilegt væri því að meta og bókfæra allan eignarhlut í Geysi Capital ehf. að nafnverði 25,5 milljónir króna á 405 milljónir króna við hlutafjáraukninguna.

Geysir Capital og Sameinað Sílikon hf. sameinuðust svo í lok árs 2017. Sameinað Sílikon hf. var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2018.

Matsmaður mat eðlilegt kaupverð allt að 291 milljón

Þrotabúið hélt því fram að Rögnvaldur hafi í sérfræðiskýrslunni ofmetið verðmæti allra hluta Geysi Capital ehf. Á móti héldu Ernst & Young ehf. og Rögnvaldur því fram að sérfræðiskýrslan hafi verið rétt og byggst á réttum forsendum sem bæði hluthafar félagsins og lánadrottnar hafi samþykkt.

Dómkvaddur matsmaður taldi að virði og eðlilegt kaupverð hlutafjár í félaginu hefði á tímamarkinu numið 205 til 291 milljón króna.

Rögnvaldur byggði á því að hann hafi fært haldbær rök fyrir sínum forsendum við gerð skýrslunnar. Þó að dómkvaddur matsmaður hafi kosið önnur viðmið leiði það sjálfkrafa ekki til þess að hann hafi sýnt af sér vanrækslu. Val á ávöxtunarkröfu sé matskennt og ekki hafið yfir vafa.

Skjaldarmerki Íslands í dómsal í dómshúsi Hæstaréttar.
Skjaldarmerki Íslands í dómsal í dómshúsi Hæstaréttar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Minnihluti taldi ekkert tjón sannað

Í niðurstöðukafla Hæstaréttar segir dómurinn að Rögnvaldur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi við gerð sérfræðiskýrslunnar en hún leiddi til þess að greiðslan sem barst félaginu hafi verið lægri en sem nam skráðri hlutafjáraukningu. Ástæða þess verði fyrst og fremst rakin til þess að hann sýndi ekki nægilega gætni við val á forsendum um rekstrarkostnaðarhlutfall og ávöxtunarkröfu Geysis Capital ehf. í skýrslunni.

Hæstiréttur var klofinn í niðurstöðu sinni og skiluðu Ása Ólafsdóttir og Benedikt Bogason, forseti réttarins, sératkvæði. Meirihluta mynduðu Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

Í sératkvæðinu lýsa dómararnir því að þeir séu sammála meirihlutanum í öllu nema að sýnt hafi verið fram á að þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hlutafé í Sameinuðu Sílikoni hf. var of hátt skráð. Var minnihlutinn sammála því að Rögnvaldur hafi sýnt af sér saknæma háttsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert