Segir íslenskt brugghús beita brögðum gegn samkeppni

Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda á Árskógssandi.
Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda á Árskógssandi.

Agnes Anna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunar Kalda, segir annan bruggaðila beita brögðum til að raska heilbrigðri samkeppni á bjórmarkaðinum og fækka samkeppnisaðilum. 

Hún segir bjórúrval á veitingastöðum og börum orðið áberandi einsleitt í kjölfar skaðlegrar undirverðlagningar sem smærri fyrirtæki geti ekki með nokkrum hætti keppt við.

Bruggsmiðjan Kaldi birti í dag Facebook-færslu í kjölfar þess að veitingahús, sem brugghúsið átti í samstarfi við, sleit viðskiptum við fyrirtækið án viðvörunar samkvæmt tilmælum stærra brugghúss. 

„Við ákváðum að skrifa þessa færslu þar sem okkur er hreinlega ofboðið,“ segir Agnes í samtali við mbl.is. 

Bjórinn Kaldi, er franleiddur í Bruggverksmiðjunni á Árskógsströnd og seldur …
Bjórinn Kaldi, er franleiddur í Bruggverksmiðjunni á Árskógsströnd og seldur á Dalvík. Skapti Hallgrímsson

„Þau vilja bara ekki hafa þessa samkeppni.“

Hún segir bjórdælur brugghúsanna tveggja hingað til hafa staðið hlið við hlið á veitingahúsinu en að á mánudaginn hafi dæla Kalda verið tekin niður og skilað án nokkurs samtals.

Dælubúnaðurinn hafi verið sérpantaður frá Ítalíu fyrir þennan tiltekna stað og kostnaðurinn hlaupið á 800 þúsund krónum. 

„Við lögðum gríðarlega mikinn metnað í þennan dælubúnað og við fáum ekki að vita af því að hann er bara mættur á gólfið hjá okkur, af því að þessi stóri aðili tók plássið okkar og vildi ekki að við værum uppi,“ segir Agnes. 

Spurð hvort hún hafi átt í samtali við veitingastaðinn í kjölfarið svarar Agnes játandi og segir málið að sjálfsögðu hafa snúið að því að hinn framleiðandinn hafi boðið betur gegn því skilyrða að dæla Kalda yrði tekin niður.

„Þeir vilja síður að Kaldi sé,“ segir Agnes og bætir við  „Þau vilja bara ekki hafa þessa samkeppni.“

Hvetur rekstraraðila til að nýta bjórúrval

Aðspurð kveðst hún ekki vilja nafngreina samkeppnisaðilann né veitingahúsið enda geti fólk auðveldlega komist að því sjálft. Hún viti ekki hvort atvikið jaðri við brot á samkeppnisreglum en vonast hún til þess að samkeppniseftirlitið skoði málið sé einhver grunur um brot þar á.

Færslan hafi fyrst og fremst verið skrifuð til vekja athygli á þeirri einokun sem ríki á bjórmarkaðinum og til að hvetja veitingamenn, bareigendur og neytendur til að stuðla að fjölbreytileika í vöruúrvali, heilbrigðri samkeppni og nýta það mikla úrval af íslenskum bjór sem sé á boðstólum. 

Það skjóti skökku við að einn framleiðandi eigi nær alla vínveitingastaði á Akureyri þegar tveir framleiðendur að norðan komist varla að.

„Við erum virkilega að reyna að bjóða eins góð verð og mögulegt er. Við erum með góða þjónustu og góða vöru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert