Tilkynnt um skóþjófnað í sundlaug

Lögreglan sinnir ýmsum verkefnum.
Lögreglan sinnir ýmsum verkefnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um skóþjófnað úr skórekka í sundlaug í Reykjavík. Málið er til í rannsóknar hjá lögreglu.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Ekki er tekið fram um hvaða sundlaug ræðir, en það var lögreglustöð eitt sem sinnti tilkynningunni. Hún sinnir verkefnum í miðbænum, Vesturbæ, Hlíðunum, Laugardal og Háaleiti.

Ók of hratt og missti stjórn á bifreiðinni

Sama lögreglustöð sinnti útkalli vegna umferðarslyss þar sem ljósastaur var ekinn niður. Ökumaðurinn reyndist hvorki ölvaður né undir áhrifum annarra efna. Hann játaði að hafa ekið of hratt og hafa því misst stjórn á bifreiðinni. Í dagbók lögreglu segir að bifreiðin sé óökufær.

Þá sinnti lögreglustöð eitt einnig tilkynningu vegna ölvaðs manns sem var til ama á krá í Reykjavík. „Hann æstur, óðamála, hávær og hlýddi engum fyrirmælum lögreglu,“ segir í dagbók lögreglu. Maður var handtekinn og vistaður í klefa sökum ástands og hegðunar.

Lögreglustöð þrjú sinnti tilkynningu vegna innbrots í geymslu í Breiðholti. Í dagbókinni kemur fram að einhverju hafi verið stolið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert