Engin stefna um fjölda apóteka

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ljósmynd/Colourbox

Hvorki Reykjavíkurborg né Kópavogsbær hafa myndað sér stefnu er varðar fjölda og staðsetningu apóteka og ólíklegt er að slík stefna verði mynduð.

Í vikunni hefur Morgunblaðið fjallað um málefni lyfjafræðinga og skort á faglærðu starfsfólki í lyfjabúðum. Deildarforseti lyfjafræðideildar HÍ velti því upp hvort apótek, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, væru ekki of mörg og vildi meina að fjöldinn gæti bitnað á starfsaðstæðum lyfjafræðinga.

Þá sagði forstjóri Lyfjastofnunar að það væri ekki stofnunarinnar að hafa skoðun á fjölda apóteka en eftir vandlega athugun væri það helst borgin og sveitarfélög sem geti sett skorður á fjöldann.

Sem stendur eru 50 apótek starfandi á höfuðborgarsvæðinu. Þar af er 31 í Reykjavík.

Man ekki eftir umræðu um fjölda apóteka

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi Samfylkingar og fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði, segist ekki vita til þess að borgin hafi myndað sér stefnu í þessum málum og hann man ekki eftir því að apótek hafi nokkurn tímann verið sérstaklega rædd í ráðinu.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að borgin komi til með að mynda sér stefnu um lyfjabúðir og fjölda þeirra segir Hjálmar: „Fyrst um sinn virkar það aðeins langsótt.“ Hann bætir við að þeir sem reka apótek þurfi að finna út úr því sjálfir hve margra apóteka er þörf.

Þá bendir hann á eðlismun apóteka í samanburði við t.d. bensínstöðvar: „Öfugt við bensínstöðvarnar eru þau ekki að taka upp neitt verðmætt byggingarpláss í borginni.“

Athygli vekur að níu apótek eru í Kópavogi en samkvæmt formanni skipulagsráðs bæjarins, Hjördísi Ýr Johnson, hefur málið ekki verið rætt í nefndinni og engin stefna um fjölda apóteka til staðar í bænum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert