Fornt íslenskt handrit fannst í Kanada

Bókatitlar voru ekki alltaf stuttir og laggóðir á miðöldum. „Skýr …
Bókatitlar voru ekki alltaf stuttir og laggóðir á miðöldum. „Skýr og ljós útlegging historíunnar pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí í átta póstum yfirfarinn. Guði eilífum til lofs og dýrðar. En þeim sem iðka vilja til sálargagns og nytsemdar,“ er byrjunin hér. Ljósmynd/Karen Loftsdóttir

„Það var maðurinn minn sem fann það, hann var að hjálpa vinkonu sinni að flytja og þetta var heima hjá henni,“ segir Gabriella Dee í samtali við mbl.is, kanadísk kona búsett í Kingston í Ontario-fylki þar í landi.

Umræðuefnið er handrit íslenskrar þýðingar á guðsorðabók frá árinu 1693 sem fannst í kjallaranum hjá téðri vinkonu eiginmannsins, Stephen Dee, við flutningaaðstoðina. Er þar um að ræða verk sem sver sig í ættina við helgirit fyrri alda og ber voldugan titil með nákvæmri innihaldslýsingu:

Skýr og ljós útlegging historíunnar pínunnar og dauðans Drottins vors Jesú Kristí í átta póstum yfirfarinn. Guði eilífum til lofs og dýrðar. En þeim sem iðka vilja til sálargagns og nytsemdar.

Actor. 10. Af þessum (Kristo) bera allar spámenn vitni, að fyrir hans nafni skulu allir þeir sem á hann trúa meðtaka syndanna fyrirgefning.

Anno MDCXCIII.

„Þetta var í fyrrasumar,“ heldur Dee áfram sem hóf þegar rannsóknarvinnu við að átta sig á tungumáli handritsins og uppruna. „Vinkona Stephens sagði honum að handritið hefði verið í húsinu allan þann tíma sem hún bjó þar, það var í hrúgu af dóti frá fyrri eiganda sem hún hafði ekkert verið að skoða,“ segir hún.

Sá að þessu mætti ekki farga

Hafi maður hennar þegar áttað sig á að hér væri forngripur á ferð þegar hann opnaði bókina og sá hið framandi tungumál auk ártalsins MDCXCIII, 1693. Þó skal nú þegar tekið fram að óvíst er að hér sé um frumrit að ræða – fornhandrit voru skrifuð upp og gerðar af þeim afskriftir og endurrit langt fram á síðustu aldir. Allt verður þetta ljóst þegar handritið kemur til Íslands en sá flutningur er einmitt í bígerð. Meira um það hér á eftir.

Handritið er ekki óskemmt, raki hefur komist í það og …
Handritið er ekki óskemmt, raki hefur komist í það og síðurnar eru velktar en textinn heill og læsilegur á þeim myndum sem mbl.is hafa borist. Ljósmynd/Karen Loftsdóttir

„Hann sá strax að þessu mætti ekki farga, þetta væri eldgamalt, svo hann tók það úr hrúgunni af munum sem til stóð að henda og kom með það heim,“ segir eiginkonan. „Ég tók myndir af titilsíðunni og sendi nokkrum vinum mínum sem eru lunknir í tungumálum. Einn þeirra á son sem hafði komið til Íslands og lært íslensku og hann sá strax að tungumálið var íslenska segir Dee og þau blaðamaður sammælast þegar um að heimurinn sé sannarlega lítill.

„Ég setti mig líka í samband við fólk á Íslandi og fólk sem ég þekki við Háskólann í Manitoba þar sem íslensk fræði eru kennd og að lokum fór það svo að mér var komið í samband við Karen,“ segir hún enn fremur og víkur nú sögunni að íslenska þátttakandanum í því merkilega ferli sem fór í gang í Kingston í Ontario í fyrrasumar. Þessi kanadíski verndari handritsins á þó sín lokaorð fyrst.

„Mér fannst mjög spennandi að komast í samband við Karen vegna þess að þessi gripur á ekki heima hjá mér. Ég vil bara að handritið komist á sinn upprunastað þar sem fólk getur lesið það, varðveitt það og kann að meta það. Á því eru rakaskemmdir og þennan gamla grip þarf að varðveita,“ segir Gabriella Dee að lokum.

Sagnfræðingurinn kemur til sögunnar

„Ég var fengin til að taka á móti handritinu fyrir hönd Árnastofnunar,“ segir áðurnefnd Karen sem reynist vera Loftsdóttir og þriðja árs doktorskandídat í sagnfræði við Queen's-háskólann í Kingston. Áður hefur hún öðlast BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands, árið 2019, og meistaragráðu í faginu frá núverandi skóla sínum í Kanada tveimur árum síðar.

Karen ásamt hjónunum Gabriellu og Stephen Dee, rauðklæddum í tilefni …
Karen ásamt hjónunum Gabriellu og Stephen Dee, rauðklæddum í tilefni Kanadadagsins svokallaða. Ljósmynd/Karen Loftsdóttir

Karen sinnir þó ekki handritafræðum í sagnfræði sinni heldur fæst við rannsóknir á hlut Kanadamanna í hernámi Íslands í síðari heimsstyrjöldinni, einkum frá menningar- og félagssögulegu sjónarhorni. Sú námsáhersla kemur þó ekki í veg fyrir að fræðimenn Stofnunar Árna Magnússonar treysti henni til að fá handritið heim – sem raunar er gömul og rótgróin krafa Íslendinga – en þann flutning munu foreldrar hennar annast.

„Þessi hjón sem fundu handritið hafa enga tengingu við Ísland en voru að aðstoða við þessa flutninga og fundu þessa augljóslega mjög gömlu bók, þetta er mjög magnað,“ segir Karen og bætir því við að þegar Dee hafi sett sig í samband við HÍ hafi erindið lent á borði Árnastofnunar sem óskaði eftir myndum og fékk þær.

Hafi þá komið í ljós að handritið fannst í skrám Landsbókasafns Íslands en var talið glatað. Hjá Árnastofnun starfar hin kanadíska Katelin Parsons, ritstjóri gagnagrunnsins Handrit íslenskra vesturfara, en þær Karen þekkjast eftir að hafa hist á ráðstefnu í fyrra. Enn minnkar heimurinn.

Háskólabyggingin í Kingston er hin virðulegasta svo sem er aðal …
Háskólabyggingin í Kingston er hin virðulegasta svo sem er aðal fornra háskóla og bygginga þeirra víða um heim. Ljósmynd/Karen Loftsdóttir

Eina eintakið eftir því sem best er vitað

„Hún veit að ég bý hér og sendi mér póst, spurði hvort ég væri að koma til Íslands í sumar,“ heldur Karen áfram frásögn sinni af ótrúlegri fléttu handritamálsins nýja, rúmri hálfri öld eftir að íslensk yfirvöld háðu hildina við Dani í öðru handritamáli sem skilaði sínu með danska varðskipinu Vædderen 21. apríl 1971.

Karen kvaðst ekki vera á leiðinni til fósturjarðar stranda í sumar en hins vegar væru foreldrar hennar á leið í heimsókn til hennar og var þar með afráðið að handritið færi með þeim til baka til Íslands en svo sem gefur að skilja lagðist starfsfólk Árnastofnunar alfarið gegn því að miðaldahandrit íslenskt yrði sent með hefðbundnum pósti.

Karen rannsakar hlut Kanadamanna í hernámi Íslands í síðari heimsstyrjöldinni, …
Karen rannsakar hlut Kanadamanna í hernámi Íslands í síðari heimsstyrjöldinni, einkum frá menningar- og félagssögulegu sjónarhorni. Ljósmynd/Karen Loftsdóttir

„Eftir því sem best er vitað er þetta eina eintakið sem til er í heiminum,“ heldur sagnfræðingurinn áfram af bókinni geistlegu sem fyrir margt löngu var í eigu Jóhannesar nokkurs Jónssonar á Fjósum í Dalasýslu en eftir því sem Örn Hrafnkelsson, sviðsstjóri varðveislu og stafrænnar endurgerðar á Landsbókasafni Íslands, getur um í grein sinni Gamlar bækur og handrit í Dalasýslu laust eftir miðja 19. öld, var talið líklegt að Jóhannes hefði haft handritið með sér er hann fluttist vestur til Kanada á þarsíðustu öld eins og margir Norðurlandabúar gerðu í leit að betra lífi. Lést hann í Winnipeg laust fyrir aldamótin 1900.

Lýkur þar Karenar þætti Loftsdóttur

„Ég hef heyrt um þetta handrit, ég fékk einmitt fyrirspurn um það frá [Gabriellu] Dee,“ segir Örn Hrafnkelsson áðurnefndur hjá Landsbókasafni, síðasti viðmælandi mbl.is í króníku þessari. „Ég gerði rannsókn á bókaeign á Íslandi árið 1865, vann hana upp úr skrá sem Jón Árnason, bókavörður Stiftsbókasafns og ritari biskups, fékk presta og prófasta til að gera í sveitum á Íslandi,“ segir Örn enn fremur.

Örn Hrafnkelsson hjá Landsbókasafni kveður það alltaf ánægjuefni að fá …
Örn Hrafnkelsson hjá Landsbókasafni kveður það alltaf ánægjuefni að fá íslensk handrit heim. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hafi þá komið í ljós að þetta handrit hefði verið á Fjósum í Dalasýslu og líkast til farið úr landi. „Og nú er það að koma aftur til Íslands,“ segir sviðsstjórinn ánægður en slær þó vissa varnagla.

„Það er að sjálfsögðu alltaf gott þegar handrit finnast en nú veit ég ekkert hvaða texti þetta er sem er í þessu handriti, hvort þetta er frumþýðing, eina þýðingin á þessum texta. Er þetta afskrift af annarri þýðingu? Nú þarf að staðfesta hvort þetta sé uppskrift frá 1693 eða afrit frá miðri átjándu öld af textanum frá 1693,“ segir Örn.

En hvaða þýðingu hefur það ef þarna er um upprunalegu þýðinguna að ræða?

„Það eru ekkert voðalega mörg sautjándu aldar handrit varðveitt og það að þetta hafi farið yfir til Kanada á síðari hluta nítjándu aldar, verið þar á heimilum fólks, flust milli staða og komi svo aftur er mjög merkilegt,“ svarar sviðsstjórinn.

„Nú vitum við hve algengt það er í dag með bækur og bókasöfn, heimilisbókasöfn, að þessu er bara hent eins og drasli þannig að það að þetta lifi af kynslóðirnar og finnist ofan í einhverjum kjallara er mjög merkilegt,“ segir Örn Hrafnkelsson varðveislusviðsstjóri að lokum og á síðasta orð í bili af handritinu íslenska sem fannst í kanadískum kjallara í fyrrasumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert