Nýju stofnanirnar verða á landsbyggðinni

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vill auka starfstækifæri …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vill auka starfstækifæri á landsbyggðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, hefur tekið ákvörðun um að aðsetur þriggja nýrra stofnana ráðuneytisins verði utan höfuðborgarsvæðisins.

Fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins að aðsetur nýrrar Umhverfis- og orkustofnunar verði á Akureyri, Náttúrufræðistofnun á Vesturlandi og Náttúruverndarstofnun á Hvolsvelli.

Þá hafa störf forstjóra þessara stofnana verið auglýst um helgina, meðal annars í Atvinnublaði Morgunblaðsins, en aðsetur þeirra verða á þar til gerðum stöðum.

Höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs verða eftir sem áður á Höfn í Hornafirði, en þær voru færðar þangað árið 2022.

Taka til starfa 1. janúar 

Alþingi samþykkti í júní lög um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. 

Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar.

Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar.

Stofnanirnar taka til starfa 1. janúar 2025.

Áður hafði Alþingi samþykkt að Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn yrðu hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands, sem fékk heitið Náttúrufræðistofnun og tók ný sameinuð stofnun til starfa 1. júlí.

Markmið að fjölga störfum á landsbyggðinni

Í tilkynningunni segir að markmið þessara breytinga er að færa starfsemina nær réttu umhverfi og fjölga störfum á landsbyggðinni. 

Sú niðurstaða þýði þó ekki að starfsmenn viðkomandi stofnana þurfi að flytja sig um set í sínum störfum, heldur verða ný störf auglýst á nýju aðsetri viðkomandi stofnunar, eða öðrum starfsstöðvum hennar á landsbyggðinni.

Fjöldi fastra starfsmanna hjá nýrri Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun verður um eða yfir 100 manns hjá hvorri stofnun. 

Stofnanirnar eru nú þegar með 20 fastar starfsstöðvar eða gestastofur víða um land, en starfsmenn nýrrar Náttúrufræðistofnunar eru um 80 talsins með starfsstöðvar í Garðabæ, Akranesi, Akureyri, Djúpavogi og við Mývatn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert