Deila um áhrif kaupa KS – „Úr lausu lofti gripið“

Ragnar Þór og Þórarinn Ingi eru ósammála um áhrif kaupanna.
Ragnar Þór og Þórarinn Ingi eru ósammála um áhrif kaupanna. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn

Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, formaður at­vinnu­vega­nefnd­ar Alþing­is og þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, segir kaup Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á allt að 100% hlutfjár í Kjarna­fæði Norðlenska hf. ekki eiga leiða til þess að verðbólga og verð á kjöti hækki. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, telur ljóst að svo verði.

Eins og mbl.is greindi frá í gær hafa hlut­haf­ar í Kjarna­fæði Norðlenska hf. samþykkt til­boð Kaup­fé­lags Skag­f­irðinga um kaup á allt að 100% hluta­fjár í Kjarna­fæði Norðlenska hf.

Í mars voru ný búvörulög samþykkt. Þau fela meðal annars í sér und­anþágu afurðastöðva í kjötiðnaði frá sam­keppn­is­lög­um sem ger­ir þeim auðveld­ara fyr­ir að sam­ein­ast. 

Lögin voru samþykkt á Alþingi í mars.
Lögin voru samþykkt á Alþingi í mars. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór skrifar Facebook-færslu um umrædd kaup. Þar segir hann VR, Neytendasamtökin og Félag atvinnurekenda hafa á sínum tíma sent erindi til matvælaráðherra. Farið hafi verið fram á að ráðherra myndi beita sér fyrir því að lögin um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum yrðu tekin til rækilegrar skoðunar, enda væru þau skaðleg neytendum, launþegum og verslun í landinu.

„Það tók ekki langan tíma að raungerast það sem við vöruðum við,“ skrifar Ragnar Þór og bætir við:

„Áhrif á hag neytenda og á verðbólgu gætu reynst almenningi dýrkeypt. Allt í boði spilltra stjórnmála.“

Hagur bænda og neytenda 

Í samtali við mbl.is segir Þórarinn Ingi rangt að kaupin muni hafa skaðleg áhrif á neytendur. Hann segir lagabreytingu hafa verið gerða til að stuðla að bæði hag bænda og neytenda.

„Þetta er ekki til þess fallið, og á ekki að vera til þess fallið, að hækka verð til neytenda og stuðla að hækkun á verðbólgu,“ segir Þórarinn. 

Nefndarsvið Alþingis skrifaði frumvarpið

Í Facebook-færslu sinni segir Ragnar Þór einnig að Finnur Magnússon, lögmaður Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, hafi hjálpað atvinnuveganefnd að skrifa fumvarpið sem varð að lögum.

„Það er út af fyrir sig athyglisvert að formaður þingnefndar staðfesti þannig opinberlega það sem ekki er hægt að kalla annað en spillingu; að lögmenn sérhagsmunasamtaka sem blasir við að hagnast á undanþágunni frá samkeppnislögum, fái að skrifa nýjan lagatexta og öllu samráðs- og umsagnarferlinu, sem málið hafði farið í gegn um, var um leið ýtt til hliðar og öðrum umsagnaraðilum gefið langt nef,“ skrifar Ragnar Þór.

Þórarinn Ingi segir Finn hafa komið fyrir nefndina, en það sé rangt að hann hafi skrifað lagafrumvarpið.

„Það er algjörlega úr lausu lofti gripið að viðkomandi aðili hafi skrifað lagafrumvarpið. Það er skrifað af nefndarsviði Alþingis. Þetta liggur allt fyrir í gögnum varðandi umsögn Samtaka fyrirtækja í landbúnaði. Auk þess kom þessi ágæti lögfræðingur fyrir nefndina þar sem að var farið yfir málið,“ segir Þórarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert