Segir náttúruna ekki þurfa umboðsmann

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, svaraði fyrirspurninni í …
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, svaraði fyrirspurninni í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hyggst ekki beita sér fyrir stofnun embættis umboðsmanns náttúrunnar og hefur í staðinn lagt fram frumvarp um sameiningu stofnana ráðuneytisins sem hafa umsjón með náttúruvernd.

Þetta kem­ur fram í svari ráðherr­ans við fyr­ir­spurn varaþing­manns Pírata, Valgerðar Árnadóttur, sem spurði hvort hann hygðist beita sér fyrir stofnun embættis umboðsmanns náttúrunnar eins og náttúruverndarsamtök hérlendis hafa óskað eftir.

„Náttúran hafi nú þegar sterkt umboð“

Guðlaugur kveðst ekki telja ástæðu til að stofna embætti umboðsmanns náttúrunnar þar sem náttúran hafi „nú þegar sterkt umboð í samfélaginu“.

Kveðst hann þeirrar skoðunar að málaflokki náttúruverndar sé ekki betur borgið undir hatti margra stofnana og að mun árangursríkara sé að einfalda stofnanakerfið. Hefur hann því lagt fram á Alþingi frumvarp um sameiningu þeirra stofnana ráðuneytisins sem hafa umsjón með náttúruvernd.

Segir hann einföldun á stofnanakerfinu leiða til betri þjónustu og efla þekkingar- og lærdómssamfélagið, sem aftur leiða til öflugri náttúruverndar í landinu.

Þátttaka almennings tryggð í lögum

Guðlaugur ítrekar aukna vitund samfélagsins um mikilvægi náttúruverndar- og umhverfismála í svari sínu. Nefnir hann meðal annars að þátttaka almennings og annarra hagsmunaaðila í ákvörðunum og undirbúningi stefnumiða er snúa að umhverfismálum sé tryggð í ýmsum lögum.

Tekur hann fram að í frumvarpi sínu um sameiningu stofnana sé lögð áhersla á aðkomu nærsamfélagsins að náttúruvernd.

„Góður árangur í náttúruvernd næst ekki nema sá hluti þjóðarinnar sem býr á eða í grennd við náttúruverndarsvæði, eða svæði sem tillaga er um að vernda, sé virkur þátttakandi og að hlutir séu gerðir með þeim hætti að þessir aðilar séu í forystu eða sáttir,“ segir hann.

Að lokum segir Guðlaugur að þessi umgjörð náttúruverndarmála á Íslandi, sem hann hefur lagt fram, geri það að verkum að umboð náttúrunnar sé sterkt og sé rétta leiðin að því að ná betri árangri í náttúruvernd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert