Ekki vör við lúsmý og hafa ekki miklar áhyggjur

Frá Hallormsstaðaskógi.
Frá Hallormsstaðaskógi. Morgunblaðið/Steinunn

Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, aðstoðarskógarvörður í Hallormsstaðaskógi, kveðst ekki hafa orðið vör við lúsmý í skóginum. 

Fyrr í vikunni var staðfest að lúsmý hefði fundist á Austurlandi en sérfræðingar telja að útbreiðsla flugunnar muni aukast jafnt og þétt með tímanum.

Skógurinn ekki kjörlendi 

„Við höfum ekki heyrt um að einhver hafi verið bitinn af lúsmýi,“ segir Bergrún í samtali við mbl.is.

Hún segir áhyggjur af lúsmýi á svæðinu ekki miklar þar sem skógurinn sé ekki kjörlendi fyrir fluguna.

„Lúsmý þarf vatn til þess að fjölga sér og það getur ekki fjölgað sér í Lagarfljótinu því það er svo lítið lífríki þar,“ segir Bergrún. 

„Ef það kemur lúsmý, þá auðvitað hef ég áhyggjur,“ bætir hún þó við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert