Byggja tengivirki vegna nýs vindorkugarðs

Reisa á stærsta vindorkuver landsins í Búrfellslundi, en áætluð afkastageta …
Reisa á stærsta vindorkuver landsins í Búrfellslundi, en áætluð afkastageta er um 120 mw. Árni Sæberg

Landsnet og Landsvirkjun hafa gert með sér samkomulag um tengingu fyrirhugaðs vindorkuvers, svonefndan Búrfellslund, inn á raforkuflutningskerfið.

Verið verður það fyrsta sinnar tegundir af þessari stærðargráðu á Íslandi og jafnframt ein aflmesta raforkuframkvæmd sem ráðist hefur verið í frá opnun Fljótsdalsstöðvar og Hellisheiðarvirkjunar árið 2010. Áætluð afkastageta vindorkugarðsins er um 120 megavött. 

Áætlaður kostnaður við innviðauppbygginu Landsnets vegna versins er um 2,3 milljarðar króna. Stefnt er að því að reisa nýtt tengivirki við Ferjufit í Rangárþingi ytra þar sem vindorkuverið mun tengjast inn. Að sögn Guðmundar Inga Ásmundssonar, forstjóra Landsnets, mun tengivirkið gegna lykilhlutverki í framtíðaráformum Landsnets á svæðinu.

„Þetta er talsvert umfangsmikil og kostnaðarsöm framkvæmd en í henni felst bygging tengivirkis sem tengist inn á Sigöldulínu 3, og skiptir henni í tvær línur,“ segir Guðmundur. 

Umfangsmikil breyting á rekstri raforkukerfisins

Þá segir, Guðmundur að framkvæmdirnar muni einnig fela í sér umfangsmikla breytingu á rekstri raforkukerfisins og öllum orkuviðskiptum í landinu, en vegna eiginleika vindorku þurfi að breyta stjórnun dreifikerfisins og því fylgi einnig aukin þörf á skammtímaorku til þess að fylla inn í eftirspurnargöt þegar vindorkan nýtist ekki.

„Vindorkan hefur eðli málsins samkvæmt öðruvísi eiginleika en vatnsafl og jarðvarmi, þar sem hún er mjög háð því hvernig vindurinn blæs. Við getum ekki stjórnað henni að öllu leyti þar sem vindorkugarðar framleiða lítið rafmagn ef það er enginn vindur,“ segir Guðmundur og bætir við:

„Þetta hefur því heilmikil áhrif á öll orkuviðskipti, en það er hlutverk Landsnets að tryggja jafnvægi milli notkunar og framleiðslu. Þegar framleiðslan er svona breytileg þarf að kaupa orku frá öðrum framleiðendum eða þá að notendur draga úr sinni orkuþörf í staðinn,“ 

Hluti af orkuskiptum

Guðmundur segir vindorkuverið jafnframt vera afar mikilvæga framkvæmd til þess að ná  markmiðum stjórnvalda um orkuskipti en í því felist fjölbreytt framleiðsla á endurnýtanlegri orku. 

„Til þess að ná markmiðum um orkuskipti þurfum að nota ýmsar leiðir til að framleiða rafmagn, m.a. með vindorku. Segja má að þetta sé fyrsta stóra skrefið í að skapa þriðju stoðina í orkukerfinu og bætist því við þær sem fyrir eru, þ.e. vatn og jarðvarma,“ segir Guðmundur. 

„Það eru því afar spennandi tímar framundan í orkumálum á Íslandi,“ segir Guðmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert