Námið lagt niður eftir að sumir nemar höfðu greitt

Háskóli Íslands hyggst leggja niður tæknifræðibraut á verk- og náttúruvísindasviði.
Háskóli Íslands hyggst leggja niður tæknifræðibraut á verk- og náttúruvísindasviði. Samsett mynd/Sigurður Bogi/Aðsend

Nemendur í tæknifræði við Háskóla Íslands eru forviða yfir ákvörðun skólans um að leggja niður námsbrautina. Nemandi segir HÍ lengi hafa vanrækt námið og telur að ákvörðunin hafi verið tekin fyrir nokkru síðan.

„HÍ setti kvöð á um að ef ekki myndu nást 25 skráningar í ár yrði deildin lögð niður,“ segir Gísli Snorri Rúnarsson tæknifræðinemi, en klausa þess efnis var samþykkt á fundi háskólaráðs 4. apríl.

Tæknifræði má lýsa sem eins konar hagnýtri verkfræði, eða „mechatronics“ eins og það kallast á ensku, og fellur undir rafmagns- og tölvuverkfræðideild á verk- og náttúruvísindasviði.

Gleymdu að auglýsa námið

Gísli segir tæknifræðina lengi hafa mætt afgangi innan HÍ og því hafi honum og öðrum nemendum blöskrað enn meira að stjórn skólans hafi skyndilega lagt deildina af án tilrauna til að auka aðsókn í námið. Í raun hafi aðsókn verið frekar góð miðað við vanrækslu HÍ að hans mati. 

„Það hefur ítrekað gerst að þetta nám bara gleymist á kynningardögum eða í auglýsingum skólans um framboð á tæknigreinum við HÍ,“ segir Gísli og bætir við að námið sé það eina innan skólans sem sé til húsa í Hafnarfirði.

„Hann var ekki einu sinni á lista sem átti að hvetja fólk til að sækja STEM-greinar skólans.“

Hann og aðrir hafi furðað sig á því að tæknifræði hafi ekki verið auglýst samhliða öðrum greinum deildarinnar í ljósi þess að tilvist námsins lægi þar við.

Náminu hafi verið bætt við auglýsingaefnið eftir athugasemdir frá nemendum en á skráningarsíðunni hafi verið stór og fráhrindandi fyrirvari um að nýnemar yrðu ekki teknir inn ef ekki næðist tilskilinn lágmarksfjöldi. 

Fleiri skráðir en í eðlisfræði

Kveðst Gísli vita til þess að 16 nýnemar hafi verið búnir að greiða skólagjöld þann 12. ágúst en HÍ hafi þá tilkynnt deildinni að námið yrði lagt niður og sent nýnemunum tölvupóst um að þeir fengju skólagjöldin endurgreidd.

Segir Gísli það stórfurðulegt í ljósi þess að lengi hefði sagt á vefsíðu HÍ að hægt væri að greiða gjöldin til og með 15. ágúst. 

Nemendur hafi þá óskað eftir upplýsingum um þá sem ættu eftir að greiða skólagjöld og spurt hvort ekki væri hægt að hringja í þá aðila og inna þá eftir skólagjöldunum, en lítið hafi verið um svör frá aðalskrifstofunni. 

Það skjóti skökku við að mati Gísla að deildin sé lögð niður vegna lakrar skráningar í ljósi þess að skráning sé betri en í mörgum öðrum deildum.

„Það voru t.d. bara átta sem skráðu sig í eðlisfræði. Þannig að ég held bara að þeir hafi verið búnir að ákveða þetta,“ segir Gísli en aðspurður kveðst hann þó engu nær um hvers vegna.

„Þeim var eiginlega bara sagt að halda kjafti“

Kveðst hann vita það af samtölum við kennara deildarinnar að þeim hafi verið gert ljóst af hálfu HÍ þeir skyldu ekki spyrja of margra spurninga eða tjá sig um afnám deildarinnar, en brautin er sú eina af sinni tegund á landinu.

„Þeim var eiginlega bara sagt að halda kjafti eins og ég skil þetta.“

Segir Gísli nemendur þó ekki ætla að taka aflagningu námsins þegjandi og hafi þeir stofnað aðgerðahóp sem hafi skrifað bréf til rektors HÍ, mennta- og háskólaráðs, Stúdentaráðs, háskólaráðherra og Verkfræðingafélags Íslands. 

„HR býður ekki upp á þetta nám þannig þetta er eina tæknifræðinámið sem er hægt að sækja á Íslandi þannig að ef þetta er lagt niður verður fólk sem hefur áhuga á því að leita til útlanda,“ segir Gísli. 

Hann bendir á að aflagning námsins, sem taki þrjú og hálft ár, þýði að nýjustu nemendur megi ekki falla í neinu þar sem ekki muni standa til boða að endurtaka áfanga, sem sé mikið álag í hátæknilegu námi.

Afar sorglegt sé að leggja eigi námið niður enda verði samfélagið af tæknimenntuðu fólki sem búi að verklegum bakgrunni. 

„Ég byrjaði í verkfræði í HR og það var bara alls ekki fyrir mig. Ég hefði hrökklast úr verkfræði hefði þetta nám ekki verið í boði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert