Opna mögulega rannsókn á bílferð ráðherrans

Bifreið sem Guðlaugur var farþegi í virðist hafa verið ekið …
Bifreið sem Guðlaugur var farþegi í virðist hafa verið ekið yfir hámarkshraða. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra segir að lögreglan muni meta það hvort að rannsókn verði hafin á máli því sem virðist vera of hraður akstur á bifreið sem ráðherra var farþegi í.

Þetta segir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is.

Er lögreglan að fara að aðhafast í þessu?

„Þetta er nú eitt af því sem þarf að skoða. Það er nú kannski ekki sérstaklega góð sönnunarstaða í svona málum, það er ekki ratsjármælir sem liggur til grundvallar, og sönnunarstaðan ekki óskaplega góð. En þetta er bara eitt af því sem þyrfti að koma í ljós,“ segir Birgir.

„Við þurfum að meta það hvað við gerum, hvort að það sé tilefni til þess að opna rannsókn. Það eru vissulega grunsemdir um að þarna hafi refsiverð háttsemi verið framin og að sjálfsögðu er rannsóknarskylda sem hvílir á lögreglunni þegar að svo ber undir en þetta er alltaf spurning um forgangsröðun og hversu mikið er unnt að eltast við svona atvik.“

Ber skylda til að rannsaka ef grunur er um brot

Fyrr í dag var birt ljósmynd innan úr bifreið á Instagram-reikningi Guðlaugs Þórs Þórðar­sonar, um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra, þar sem Guðlaugur sat í farþegasætinu og annar maður ók bílnum.

Á myndinni sást að bílinn var á mikilli hraðferð, en henni var ekið á 110 kílómetra hraða, eða 20 kílómetrum yfir há­marks­hraða, samkvæmt hraðamælinum í bílnum. 

Þannig þið metið það, með tilliti til ýmsa þátta, hvort að þetta verði rannsakað?

„Já, samt sem áður er það tvímælalaust lagaskylda sem hvílir á lögreglu að aðhafast þegar það er grunur um refsiverða háttsemi. Það kemur bara fram í lögum um meðferð sakamála.“

Ráðherrann virðist hafa verið staddur nærri Sauðárkróki.
Ráðherrann virðist hafa verið staddur nærri Sauðárkróki. Skjáskot

Þurfa að afla gagna

Birgir segir það hlutverk lögreglu að afla allra tiltækra gagna ef grunur er um að refsivert brot hafi verið framið.

Komast þurfi að því hvar bíllinn var staddur til þess að vita í hvaða lögregluumdæmi mögulegt brot var framið.

Ef marka má ljósmyndina var ráðherrann nærri Sauðárkróki þegar myndin var birt.

Skjáskot

Bílstjórinn gæti játað meint brot

Hann segir að bílstjórinn gæti farið upp á lögreglustöð og játað meint brot en það breyti því ekki að lögreglan þyrfti að rannsaka málið til að meta trúverðugleika játningarinnar.

„En það er alltaf jákvætt ef að borgarinn kemur á lögreglustöð og játar afbrot og upplýsir þannig um þau. En það heyrir nú kannski til undantekninga að það sé gert.“

Þess má geta að sam­kvæmt hraðasektareikni lög­regl­unn­ar yrði bíl­stjóri bif­reiðar­inn­ar sektaður um 50.000 krón­ur, yrði hann stöðvaður af lög­reglu á þess­um hraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert