„Þetta er bara ótrúlega leiðinlegt“

Óli Dóri segir leitt að kveðja viðburðahald á Kex Hostel.
Óli Dóri segir leitt að kveðja viðburðahald á Kex Hostel. Samsett mynd/Aðsend

„Eigendur staðarins ákváðu að breyta hæðinni í hótelherbergi því þeir töldu sig geta aflað meira fjár þannig.“

Þetta segir Ólafur Halldór Ólafsson, betur þekktur sem Óli Dóri, fráfarandi viðburðastjóri Kex Hostel og plötusnúður, sem lokar brátt fyrir tónleika- og viðburðahald sem farið hefur fram á annarri hæð gistiheimilisins til þessa.

Bar og pítsustaður Kex verði flutt niður á neðri hæð hússins.

„Þetta er ótrúlega leiðinlegt að sjá enn einn staðinn fara frá okkur,“ segir Óli Dóri sem segir mikla vöntun á smærri og meðalstórum stöðum undir tónleikahald.

Sorglegt að gisting sé í forgangi

Staðan sé svört í tónlistarsenunni að hans mati enda varla hægt að telja tónleikastaði sem eftir eru í Reykjavík á annarri hendi. Ört uppgengi ferðaiðnaðarins og skammtímahagnaðarsjónarmið séu þar að leiðarljósi.

„Sorglegt að það sé verið að taka gistingu fram fyrir menningu,“ segir Óli Dóri.

„Þetta er algjör skammsýni. Fólk kemur til Reykjavíkur til að sjá þessa menningu og þessar hljómsveitir og tónlist. Fyrstu ferðamennirnir voru að koma hingað til að sjá tónlistarmenningu og næturlífið hérna.“

Ekkert fyrir ferðamenn að skoða ef borgin er dauð

Gott væri að hans mati ef stjórnvöld eða borgaryfirvöld myndu leggja tónlistar- og viðburðasenunni lið og styrkja með einhverjum hætti til að halda henni á lífi – enda sé framtíðin frekar dapurleg án menningar.

„Borgin verður ekki mjög lifandi ef það eru bara hótel til að skoða og engin menning.“ 

Dæmi séu um að önnur Norðurlönd styrki menningar- og viðburðarhald og minnist Óli Dóri þess að Reykjavíkurborg hafi veitt þeim á Kex styrk til að fjárfesta í hljóðkerfi á sínum tíma sem hafi skipt sköpum fyrir starfsemina. 

Kveðja Kex með stæl

Aðspurður kveðst Óli Dóri ávallt vera bjartsýnn maður og því vongóður um að tónleika- og viðburðarhald Kex finni sér annan stað, þó hann viti enn ekki hvar. Um helgina verði staðurinn í núverandi mynd kvaddur með pompi og prakt.

„Við ætlum að leggja allt í síðasta kvöldið og kveðja þessa menningarmiðstöð með stæl.“

Lokatónleikar Kex verða haldnir á laugardaginn og koma hljómsveitirnar Spacestation, Hasar, KUSK + Óviti og Amor Vincit Omnia þar fram en Óli Dóri mun sjálfur þeyta skífum í lokahófinu.

Þá mun hljómsveitin Babies einnig halda hinsta ball staðarins á föstudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert