Vinna við umfangsmiklar lagfæringar innanhúss er hafin í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Steyptar hafa verið undirstöður undir veggi og gólf og nú er unnið að múrviðgerðum veggja og lofta á neðri hæð.
Þetta kemur fram í svari fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Morgunblaðsins. Þar segir að við endurgerðina sé horft til þess að allt handverk, efni og aðferðir standi vörð um menningarsögulegt gildi hússins. Reiknað er með að framkvæmdir muni taka allt að tvö ár til viðbótar við miklar endurbætur sem gerðar hafa verið á ytra byrði hússins síðustu ár.
Hegningarhúsið er nú á forræði fasteignafélagsins Storðar ehf. sem komið var á fót í fyrra af hálfu ríkisins. Það félag hefur látið vinna breytingar á deiliskipulagi sem fela í sér að koma megi veitingahúsi meðfram norðurvegg fangelsisgarðs.
„Hvað varðar notkun hússins þá er það enn til skoðunar hvaða starfsemi verði fyrirkomið í eigninni. Unnið er eftir því grundvallarskilyrði að húsið og fyrrum fangelsisgarður verði opinn eða aðgengilegur almenningi. Miðað er við að endanleg ákvörðun um starfsemi í húsinu verði tekin þegar framkvæmdir innanhúss eru komnar lengra,“ segir í svari fjármálaráðuneytisins.