Rafmagnslaust í Vík

Frá Vík í Mýrdal. Mynd úr safni.
Frá Vík í Mýrdal. Mynd úr safni. Ljósmynd/Sorasak Jiamahasub

Rafmagnslaust hefur verið í Vík í Mýrdal og sveitum þar í kring í kvöld. Alveg rafmagnslaust var í bænum í hátt í þrjár klukkustundir frá klukkan 19.05.

 „Við erum komin með rafmagn á hluta af bænum og erum að vinna í að byggja upp meira,“ segir Gísli Þór Ólafsson, deildarstjóri kerfisstjórnar hjá Rarik, í samtali við mbl.is.

Óvíst hversu mikil vinna viðgerðin verði

„Það lítur út fyrir að við séum mögulega að eiga við strengbilun á strengnum á milli aðveitustöðvarinnar á Holti og við Vík. Við erum búin að senda okkar fólk á staðinn og erum komin með varavélar í gang á svæðinu,“ segir Gísli Þór.

Hann segir að vinna sé hafin við að spennusetja hluta af kerfinu í Vík eftir því sem þau treysta varaaflinu til. Þegar sé farið að huga að því að flytja meira varaafl á svæðið ef þetta verði langvarandi bilun.

Hann segir að ekki sé vitað hvort það verði mikil framkvæmd að koma kerfinu í lag. Verið sé að koma bilunargreiningartæki á svæðið til að staðsetja og finna bilunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert