„Foreldrarnir geri sér enga grein fyrir því hvað sé í gangi“

„Þetta eru mörg hundruð unglingar, margir hverjir fjórtán, fimmtán, sextán ára, og það er oftar en ekki áfengisneysla og ég held einfaldlega að foreldrarnir geri sér enga grein fyrir því hvað sé í gangi þarna.“

Þetta segir Unnar Þór Bjarnason lögregluþjónn en hann var gestur Dagmála í vikunni ásamt Kára Sigurðssyni, verkefnastjóra Flotans – Flakkandi félagsmiðstöðvar, til að ræða aukið ofbeldi og vopnaburð meðal ungmenna.

Báðir segja þeir skipta sköpum að foreldrar setji börnum sínum mörk og fylgist sömuleiðis vel með því hvað börnin þeirra séu að gera og hverja þau umgangist, enda sé sterk tenging milli neyslu og ofbeldis.

Foreldrar skutli börnunum á eftirlitslausar samkomur

Kveðst Unnar ósjaldan hafa gengið inn í óformlegar unglingasamkomur þar sem eftirlitslaus ungmenni skipti jafnvel hundruðum.

Ekkert utanumhald né öryggisgæsla sé á slíkum samkomum en að sem betur fer komist félagsmiðstöðvar oftar en ekki á snoðir um slíkar samkomur og láti lögregluna vita. Það sé aftur á móti takmarkað hvað lögregla geti gert á svo stórum samkomum.

Foreldrar þurfi því að tala saman til að vita hvað sé í gangi og hvort tilteknar samkomur séu á vegum einhvers félags eða skóla en ekki eftirlitslausar.

„Eins og þessar samkomur í Elliðaárdalnum eða Guðmundarlundi, þar eru bílaraðirnar af foreldrum að skutla börnunum sínum á samkomu án þess held ég að gera sér grein fyrir því hvað sé í gangi þarna.“

Aukinn vopnaburður ungmenna hefur vakið mikinn óhug að undanförnu. Kári …
Aukinn vopnaburður ungmenna hefur vakið mikinn óhug að undanförnu. Kári og Unnar segja foreldra mikilvægan lið í forvarnarstarfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allt í lagi að vera „ósanngjarnt“ foreldri

Segir Kári eftirlitsleysi unglinga sömuleiðis gæta á bæjarhátíðum og stærri viðburðum og að mörg börn og ungmenni séu ein á ferð niðri í bæ.

Mikilvægt sé að foreldrar stígi fastar til jarðar í slíkum efnum og taki ákvörðun um hvað barnið megi og hvað ekki. Sumt þurfi ekki að vera til umræðu enda séu það foreldrarnir sem hafi ákvörðunarvaldið og þurfi að veita börnum sínum aðhald.

„Unglingum finnst foreldrar þeirra stundum vera ósanngjarnir og það er allt í lagi,“ segir Kári og segir foreldra til að mynda frekar geta boðist til að fara með börnum sínum.

Sömuleiðis séu foreldrar mikilvægir liðir í forvarnaraðgerðum almennt og í að veita öðrum foreldrum aðhald. Mikilvægt sé að foreldrar ræði sín á milli og taki virkan þátt í foreldrafélögum, foreldrarölti eða öðru verndandi starfi í nærumhverfi barna sinna til að vernda eigin börn og annarra.

Viðtalið er aðgengilegt í heild sinni fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert