Stimplum stráka ólæsa og uppnefnum þá í sömu andrá

Dröfn Vilhjálmsdóttir hefur starfað á skólabókasafni í fjölda ára.
Dröfn Vilhjálmsdóttir hefur starfað á skólabókasafni í fjölda ára. Samsett mynd

„Við erum að stimpla stráka ólæsa og svo erum við í sömu andrá að uppnefna þá í titlunum. Segjum að þeir séu sóðar, latir og klaufar,“ segir bókasafnsfræðingurinn Dröfn Vilhjálmsdóttir.

Hún furðar sig á umræðunni um að börn, sér í lagi strákar, lesi ekki. Hún segir að börn langi að lesa en að bækurnar séu ekki til staðar.

Dröfn hefur starfað á skólabókasafni í grunnskóla í hátt í tólf ár en fyrr í dag fjallaði hún á Facebook um framboð barnabóka á íslensku og þá skökku mynd sem þær sýna gjarnan af drengjum.

Færslan hefur vakið mikla athygli.

Tilhneiging til að sýna stráka á ákveðinn hátt

„Þegar kemur að líðan og sjálfsmynd barna okkar þá velti ég því fyrir mér hvaða barnabækur sýni okkur drengi sem jákvæða fyrirmynd? Vissulega er hægt að finna dæmi um það, sérstaklega í nýlegum bókum. En það er fremur áberandi að oft fjalla vinsælir bókaflokkar, sem eiga að höfða til stráka, um erfiða stráka og jafnframt eru þeir málaðir upp sem mjög einhliða persónuleikar,“ skrifaði Dröfn.

„Það er ákveðin tilhneiging að sýna stráka þannig að þeir geti ekki verið sniðugir eða skemmtilegir án þess að stríða eða vera óþekkir.“

Með færslunni birti hún myndir af tveimur bókastöflum.

Í öðrum þeirra voru bækur sem eiga að höfða til stúlkna en þær bera titla á borð við; Fíasól er flottust, Ísadóra Nótt fer í skóla, Judy Moody bjargar heiminum og Lára lærir að lesa.

Í bunkanum af bókum ætluðum drengum slær við annan tón; Skúli skelfir hefnir sín, Kiddi klaufi: Randver kjaftar frá, Tommi Klúður og Fróði Sóði.

Bækur ætlaðar stúlkum eru gjarnan með jákvæðari titla.
Bækur ætlaðar stúlkum eru gjarnan með jákvæðari titla. Ljósmynd/Aðsend
Bækur sýna drengi gjarnan á einsleitan máta.
Bækur sýna drengi gjarnan á einsleitan máta. Ljósmynd/Aðsend

Sumar bókanna úreltar

„Ég sjálf hef unnið lengi á skólasafni og ég hef ekki hugsað þetta svona skýrt fyrr en ég tók þetta saman, tók myndir af þessum bókum og fór að spá í þetta,“ segir Dröfn í samtali við mbl.is.

Hún veltir fyrir sér hvaða skilaboð þetta sendi til drengja.

„Við erum að stimpla stráka ólæsa og svo erum við í sömu andrá að uppnefna þá í tiltlinum. Segjum að þeir séu sóðar, latir og klaufar. [...] Þetta hlýtur að meitlast inn á einhvern hátt, einhvers staðar. Það hefur alla vega gert það hjá okkur fullorðna fólkinu, við höfum ekki einu sinni spáð í það að við erum alltaf að tala um Kidda klaufa og svo framvegis og hvort það sé í lagi,“ segir Dröfn.

Hún bætir við að hún stundi ekki ritskoðun í sínu starfi sem bókasafnsfræðingur en að sumar þessara bóka séu einfaldlega úreltar og höfði ekki lengur til barna.

„Við erum komin með nýja sýn, breytt gildi og nýtt umhverfi og sumar bækurnar tengja þau ekkert lengur við.“

Ekki annað efni í boði

En af hverju bjóðum við þá börnum enn upp á þær bækur? Dröfn segir að það sé einfaldlega vegna þess að það sé ekki nóg af spennandi barnabókum á markaðinum.

Hún tekur þó fram að hún sé á móti bókasnobbi og að börn megi lesa bækur sem séu bara skemmtilegar. Við þurfum þó að vera meðvituð um að mála ekki upp mjög einsleitar persónur eða neikvæðar.

„Ef við tökum Skúla Skelfi sem dæmi þá eru léttlestrarbækur úr þeim bókaflokki sem ég væri kannski ekkert sérstaklega að ota að krökkunum, ef ég væri með annað léttlestrarefni í boði sem væri meira í takt við samfélagið okkar og gildi í dag, en ég hef það ekki.

Ég hef ekki nógu mikið til að uppfæra með, þannig ég þarf að vera áfram með þetta gamla og stundum jafnvel úrelta sem er ekkert endilega það besta fyrir þau eða það sem þau eru áhugasömust um.“

Dröfn bendir á að það gæti hreinlega borgað sig fjárhagslega …
Dröfn bendir á að það gæti hreinlega borgað sig fjárhagslega að setja meiri pening í barnabókaútgáfu. mbl.is/Styrmir Kári

Mettar í besta falli 10% af þörfinni

Í Facebook-færslu sinni talar Dröfn um að hennar reynsla sé að börn vilji sannarlega lesa en að þó hún kaupi inn á skólasafnið allar barna- og unglingabækur sem gefnar eru út á íslensku metti það úrval í besta falli um 10% af bókaþörf barnanna.

Spurð út í þetta segir hún:

„Við erum kannski með einn eða tvo bókaflokka sem börnin elska en í Svíþjóð eru þau kannski með hundrað sambærilega flokka og þá geturðu mettað þig af þessum flokkum. Þú lest og lest og lest og svo ertu tilbúinn að færa þig yfir í meira krefjandi bækur og svo koll af kolli.

Hjá okkur er þetta þannig að börnin klára bókaflokk og koma til mín og spyrja hvort eitthvað sambærilegt sé til og þá er svarið nei.“

Hún segir að barnabókaúrvalið á landinu sé uppfullt af götum. Það vanti meira af sambærilegu efni til að halda áhuga barnanna við, það vanti ákaflega mikið léttlestrarefni og það vanti bækur inn í þýddar seríur því það borgi sig ekki fyrir útgefendur að þýða meira.

„Ég sé þetta daglega. Börnin koma til mín og ég er stundum með í maganum þegar ég lána þeim bók númer tvö í þýddum bókaflokki. Barnið kemur og segir: „Vá, bók númer eitt var svo æðisleg, má ég fá númer tvö?“ og ég veit að það mun koma aftur og spyrja um bók númer þrjú og þá þarf ég að segja: „Nei, veistu, það var bara ekki þýtt meira“.“

Hver einasta bók þarf að skila hagnaði

Í þessu samhengi segir Dröfn út í hött að hver einasta barnabók á örtungumálinu íslensku þurfi að skila hagnaði til að vera gefin út.

„Það er rosalega skrýtið og ósanngjarnt að setja það á einkarekin forlög að þau eigi að sjá um þennan markað sem er bara undirstaða læsis og lesturs barna,“ segir hún og bætir við að þær bækur sem börnin vilji helst lesa séu ekki endilega þær bækur sem seljist best.

Börn séu nefnilega ekki kaupendur á markaðinum heldur fullorðnir aðstandendur þeirra.

„Það sem við sjáum að er vinsælast á skólasöfnunum er ekki endilega það sem er vinsælast markaðslega séð,“ segir Dröfn.

Dröfn segir að barnabókaúrvalið á landinu sé uppfullt af götum.
Dröfn segir að barnabókaúrvalið á landinu sé uppfullt af götum. mbl.is/Hari

Ríkið þarf að tryggja útgáfuna

Hún telur að eina leiðin til þess að tryggja nægt úrval barnabóka á Íslandi sé að ríkið stígi inn í, en í því samhengi megi sérstaklega líta til Noregs.

Þar kaupi ríkið 1.800 eintök af hverri barnabók sem er talin mæta ákveðnum staðli og er þeim dreift á bókasöfn landsins.

„Fyrir mér, sem er búin að pæla í þessu í rúman áratug, er bara ein leið til að gera þetta og það er eins og þeir gera í Noregi. Það þarf að vera tryggt að útgefendur tapi ekki á barnabókum sem þeir gefa út.

Í Noregi eru þeir með svokallað kúltúrráð þar sem þeir meta bækurnar samkvæmt ákveðnum stöðlum og út frá þeim kaupa þau 1.800 eintök af hverri útgefinni barna- og unglingabók og dreifa til bókasafnanna í landinu. En það að dreifa til bókasafnanna er aukaafurð, þetta snýst ekki um það,“ segir Dröfn og bætir við:

„Þetta snýst um að útgefandinn viti að hann er ekki að fara að tapa á þessari útgáfu og geti gefið út bækur sem börn langar að lesa.“

Nóg til af höfundum

Dröfn segir að enginn skortur sé á góðum barnabókahöfunum á Íslandi en hún er í miklum tengslum við marga þeirra og les meðal annars stundum yfir handrit af barnabókum. 

„Mjög margir þeirra væru til í að skrifa meira en þeir verða náttúrulega að eiga salt í grautinn og það er enginn að fara að lifa af barnabókaútgáfu, því miður. Við sem samfélag ættum hreinlega að greiða okkar stórkostlegu barnabókarithöfundum fyrir að skrifa bækur fyrir börnin okkar.“

Þá segir hún að margir íslenskra barnabókahöfunda geri sérstaklega vel í að skrifa skemmtilegar bækur sem fjalla um góðar fyrirmyndir og eru vinsælar hjá börnum. 

Gæti borgað sig fjárhagslega

Að lokum bendir Dröfn á að það gæti hreinlega borgað sig fjárhagslega að setja meiri pening í barnabókaútgáfu.

„Stundum hugsa ég um allt það fé sem hefur verið ausið í lestrarátök, sem við sem erum á gólfinu horfum á og sjáum ekki hvar þau eru að fara að virka – hvað myndi gerast ef við myndum aðeins nota brot af þessu til að styðja við útgáfu barnabóka,“ segir hún.

„Notum peninginn í útgáfu barnabóka og skólasöfnin. Þá ertu kominn með þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert