Pönkast áfram í gegnum lífið

Kolbeinn og Tómas segja pönkið vera orku, sem kannski hafa …
Kolbeinn og Tómas segja pönkið vera orku, sem kannski hafa verið í felum en sé smátt og smátt að koma til baka. Ljósmynd/Sigurður Erik

Heimildarmyndin um pönksveitina Purrk Pillnikk: Sofandi, vakandi, lifandi, dauður, var sýnd á Skjaldborgarhátíðinni á Patreksfirði í vor við afar góðar undirtektir. Þann 11. september verður hátíðarfrumsýning myndarinnar í Bíó Paradís en myndin verður sýnd þar út september.

Blaðamaður spjallaði við þá Kolbein Hring Bambus Einarsson og Tómas Sturluson um gerð myndarinnar, pönkið og Purrk Pillnikk. 

Purrkur tók meðal annars upp efni í hljóðveri í Bretlandi …
Purrkur tók meðal annars upp efni í hljóðveri í Bretlandi og fór einnig á tónleikaferðalag þar í landi, vorið 1982. Ljósmynd/Ólafur Ingi Jónsson

Purrkur Pillnikk var stofnuð árið 1981 með því markmiði að spila á tónleikum í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð. Allt gerðist á hálfgerðum ljóshraða, meðlimir komu saman og sömdu tíu lög á fjórum tímum til að geta leikið á tónleikunum kvöldið eftir. Hljómsveitin var ansi afkastamikil því þrátt fyrir aðeins 18 mánaða starfstíma gáfu þeir út alls fjörutíu lög á fjórum plötum. En plötur sveitarinnar, einkum sú síðasta No time to think, hlutu almennt góða dóma, m.a. í Morgunblaðinu.

Aðdragandi myndarinnar

„Við kynnumst fyrir um fimm árum,“ segir Kolbeinn þegar hann rifjar upp hvernig leiðir þeirra lágu saman. „Tómas var að taka upp myndefni og hafði ekki tíma til að klippa það svo að ég tók við því. Síðan byrjuðum við að hittast meira, mánuði seinna vorum við komnir í lestarferðalag um Evrópu og höfum verið nánir síðan.“ Þeir hafi þó alltaf reynt að halda vinnu utan við vinskapinn en heimildarmyndin er fyrsta stóra verkefnið þeirra saman. „Við erum ennþá vinir í dag,“ segir Kolbeinn kíminn.

Heimildarmyndin verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 11. september og …
Heimildarmyndin verður frumsýnd í Bíó Paradís þann 11. september og verður í sýningu út mánuðinn.

Kolbeinn er sonur Einars Arnar Benediktssonar söngvara Purrks Pillnikks, en hann var einnig í Sykurmolunum. Aðrir meðlimir voru þeir Bragi Ólafsson bassaleikari, Friðrik Erlingsson gítarleikari og Ásgeir Bragason trommuleikari sem lést árið 2015. Eftir að sveitin kom saman aftur hefur Sigtryggur Baldursson fyllt í skarðið á trommunum.

Í maí 2023 hittust meðlimirnir eftir tæplega 40 ára hvíld frá Purrki. Þá voru þeir við æfingar og upptökur fyrir útgáfu á heildarsafni verka sinna ásamt nýju efni. Kolbeinn og Tómas voru á staðnum til að taka upp efni fyrir tónlistarmyndbönd við einhver laganna.

Það var svo Margrét Jónasdóttir aðstoðardagskrárstjóri á Ríkisútvarpinu sem heillaðist af myndböndunum og hvatti þá til að taka skrefið lengra og gera heimildarmynd um bandið.

Pönksveitin Purrkur Pillnikk var stofnuð árið 1981 og gaf út …
Pönksveitin Purrkur Pillnikk var stofnuð árið 1981 og gaf út alls 40 lög á fjórum plötum þrátt fyrir að hafa aðeins starfað í 18 mánuði. Ljósmynd/Ólafur Ingi Jónsson

Pönkið er orka

„Er pönkið að koma aftur?“ er spurning sem brennur á blaðamanni. Tómas segir pönkið miklu frekar orku en tónlistarstefnu. Orkan hafi klárlega alltaf verið fyrir hendi, kannski verið í felum um nokkurt skeið en sé að einhverju leyti að koma til baka.

„Hvað með hljómsveitarmeðlimi, eru þeir pönkarar í dag?“

Kolbeinn segir pönkið vera ákveðið viðhorf til lífsins fremur en að vera með hanakamb í útkrotuðum leðurjakka og rifnum buxum.

„Snýst þetta ekki bara um að pönkast áfram í gegnum lífið?“ spyr Tómas á móti, sem er góður endapunktur á viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert