Samfélagið njóti ábatans

Hátt í 200 manns sóttu fundinn þar sem Róbert Guðfinnsson …
Hátt í 200 manns sóttu fundinn þar sem Róbert Guðfinnsson kynnti áform Kleifis fiskeldis um stórfellt fiskeldi. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Áform Kleifa fiskeldis voru kynnt á fjölsóttum fundi sem fyrirtækið boðaði til á Ólafsfirði í gær. Þar fór Róbert Guðfinnsson, einn eigenda Kleifa, yfir áform fyrirtækisins sem stefnir að eldi á allt að 20 þúsund tonnum af ófrjóum laxi.

Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu eru áformin þríþætt; seiðaeldi á Siglufirði, landeldi í höfninni á Ólafsfirði og kvíaeldi í fjörðum á Tröllaskaga.

Róbert sagði að mjög hröð þróun hefði verið í laxeldi á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hefði heimsframleiðslan aukist úr 890 þúsund tonnum í um þrjár milljónir tonna. Á Íslandi skilaði laxeldi nú um 50 þúsund tonnum. Þróunin í greininni væri mjög hröð. Í Noregi væru nýttir flestir firðir og flóar til laxeldis og nú litu menn þar á land upp, þ.e. til landeldis, og nýttu sjó sem streymt væri hreinsuðum í gegnum kvíar á landi. Í undirbúningi væri 80 þúsund tonna landeldi í Lofoten sem byggði á slíkri tækni. Það væri þessi tækni sem Kleifar fiskeldi horfði til í fiskeldisáformum sínum í höfninni á Ólafsfirði.

Ófrjór lax í eldi

„Umræðan um laxeldi hefur einkennst af slysasleppingum á frjóum laxi úr eldiskvíum sem skapar hættu á erfðamengun sem og umhverfissóðaskap af eldinu,“ sagði Róbert og benti á að slíku væri ekki til að dreifa þegar um ófrjóan fisk væri að ræða.

„Gangi áætlanir vísindamanna eftir, lítur út fyrir að fram sé að koma tvílitna lax sem er ófrjór og getur þ.a.l. ekki tímgast með villtum laxi. Menn geta spurt af hverju við séum að halda borgarafund um málefni sem er svona skammt á veg komið. Þegar við hófum uppbyggingu í ferðaþjónustu á Siglufirði gerðum við það sama, sýndum fólki hver staðan væri og hvað við ætluðum að gera og loks sýndum við hvað við gerðum. Hið sama erum við að gera á þessum fundi,“ sagði Róbert.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert