Gámi stolið úr Elliðaárdalnum

Hér sést hinn stolni gámur en mikið mál hefur verið …
Hér sést hinn stolni gámur en mikið mál hefur verið að flytja hann. Ljósmynd/Aðsend

Eigendur verktakafyrirtækisins Gleipnis urðu fyrir því óláni í byrjun vikunnar að kaffigámi fyrirtækisins var stolið úr Elliðaárdalnum.

Enn hefur gámurinn ekki komið í leitirnar en eigendur hans deyja ekki ráðalausir.

„Við byrjuðum á að hafa samband við kranafyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu til að athuga hvort eitthvert þeirra hefði verið beðið um að ná í gám þangað niður eftir,“ segir Máni Gestsson, annar eigandi Gleipnis, í samtali við mbl.is en mikið mál er að flytja gám og þarf kranabíl til.

Þegar það hafði ekki upp á sig auglýsti fyrirtækið eftir gáminum á Facebook-síðu sinni en færslan hefur vakið mikla athygli og fengið yfir 500 deilingar.

Kostar rúmar tvær milljónir

Einhverjar ábendingar hafa borist frá fólki sem telur sig hafa séð gáminn en svo hefur ekki verið.

„Við erum búin að fara á einhverja tvo staði en hann hefur ekki reynst vera þar,“ segir Máni.

Hann bætir við að fyrirtækið hafi ekki enn tilkynnt málið til lögreglu en að það verði gert.

Spurður um hve mikil verðmæti sé að ræða útskýrir Bolli að þetta sé ekki vörugámur heldur svo kallaðaður kaffigámur en hann telur að nýr slíkur gámur kosti á bilinu tvær til tvær og hálfa milljón.

Þá er hann óviss um hvað fólki sem steli gámi sem þessum standi til en að líklega sé það gert til þess að selja hann eða til eigin nota á einhverju vinnusvæði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert