Gömlu sveitaböllin liðin tíð

Undirfellsrétt er ein af fjárflestu réttum landsins ef ekki sú …
Undirfellsrétt er ein af fjárflestu réttum landsins ef ekki sú fjárflesta. Ljósmynd/Birgir Þór Haraldsson

Fyrsta réttarhelgin hefur runnið sitt skeið en réttað var um 13 þúsund fjár í Undirfellsrétt í Vatnsdal um helgina. Birgir Þór Haraldsson, bóndi á Kornsá, segir réttirnar hafa gengið vel fyrir sig. Undirfellsrétt sé ein af fjárflestu réttum landsins ef hreinlega ekki orðin sú fjárflesta.

Veður var með besta móti og seg­ir Birg­ir al­veg furðulegt að það skyldi hitta svo á því tíðin hafi verið eins öm­ur­leg og hægt er í sum­ar. Til marks um það seg­ist hann einnig hafa klárað að heyja á laug­ar­deg­in­um og að í gær, á sama deg­in­um, hafi verið lokið við að vigta lömb­in og haldin töðugjöld.

„Það er nú ekki al­gengt,“ segir Birgir.

Réttað var í Und­ir­fells­rétt á tveimur dögum. Á föstu­deg­in­um var safnið úr Grímstungu­heiði réttað og á laug­ar­deg­in­um var safnið réttað af Haukagils­heiði og Víðidals­fjalli.

Nálægt eitt þúsund manns komu að réttunum um helgina.
Nálægt eitt þúsund manns komu að réttunum um helgina. Ljósmynd/Birgir Þór Haraldsson

25 bæir og um þúsund manns í það heila

Var margt um manninn í réttunum?

„Það eru lögð fjallskil á 25 bæi en það eru ekki alveg allir með fé. Þetta eru náttúrulega sitt hvorir bæirnir þessa tvo daga. Það er allt kjaftfullt af bílum þegar þetta stendur yfir. Það er sennilega nálægt 500 manns þarna hvorn dag fyrir sig.“

Einn dilkur í Undirfellsrétt hefur verið lagður af sem hentar ágætlega fyrir þá sem vilja koma og fylgjast með.

Birgir segir að eftir réttir reki bæirnir féð heim á leið og segir hann að oft myndist mikil stemning í kringum það. „Í den tid voru nú alltaf réttarböll en það er nú alveg fallið upp fyrir eins og þú veist með þessi gömlu sveitaböll. Það er bara gleðskapur á bæjunum, fólk rottar sig bara saman,“ segir Birgir.

Ljósmynd/Birgir Þór Haraldsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert