Grunsamlegar mannaferðir í Vesturbænum

Lögreglan sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag sem endranær.
Lögreglan sinnti fjölbreyttum verkefnum í dag sem endranær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um grunsamlegar mannaferðir í Vesturbænum í dag. Lögreglumenn voru sendir á vettvang en talið er að einhver hafi verið að reyna að komast inn í bifreiðar.

Þá var múrsteini kastað inn um glugga í Reykjavík en lögregla fékk tilkynningu um rúðubrotið.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglu vegna verkefna hennar frá því í morgun og til síðdegis í dag.

Þá fékk lögregla tilkynningu um hugsanlegt innbrot í íbúð í fjölbýlishúsi, þjófnað í matvöruverslun og vinnuslys.

Tilkynning barst einnig um mann sem reyndi að borga með stolnu greiðslukorti. Kortið var gert upptækt en þegar lögregla kom á staðinn var maðurinn á bak og burt.

Tveir voru þá stöðvaðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis en báðir höfðu þeir einnig verið sviptir ökuréttindum og aðrir tveir undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert