Náði að losna við hústökumanninn

Maðurinn kom í veg fyrir að Þorsteinn gæti afhent hús …
Maðurinn kom í veg fyrir að Þorsteinn gæti afhent hús sitt á Sauðárkróki. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Allt er gott sem endar vel,“ segir Þorsteinn Baldursson sem lenti á dögunum í þeim leiðinlegu aðstæðum að hústökumaður neitaði að yfirgefa hús hans á Sauðárkróki þegar hann hugðist afhenda það nýjum eigendum.

Nú hefur niðurstaða fengist í málið, hústökumaðurinn er kominn í úrræði á vegum félagsmálayfirvalda í bænum og Þorsteinn afhendir húsið í hádeginu á morgun.

Neitaði að yfirgefa húsið

Feykir.is greindi fyrstur frá málinu á föstudaginn en í frétt miðilsins var forsaga málsins rakin.

Þorsteinn bauð fyrir ári erlendum manni, sem bjó við hrörlegar aðstæður á Sauðárkróki, að búa í hluta af húsi sínu gegn vægu gjaldi þangað til hann fyndi annan stað til að búa á. Alltaf stóð til að Þorsteinn myndi selja húsið.

Þegar húsið var selt og kominn tími til að afhenda það harðneitaði maðurinn þó að yfirgefa húsið og Þorsteinn gat lítið aðhafst í málinu vegna þess að maðurinn var þar með skráð lögheimili.

Það var ekki fyrr en á föstudagskvöldið að fór að leysast úr flækjunni.

Maðurinn hafði samband við lögreglu

„Á föstudaginn, klukkan rúmlega tíu að kvöldi, fengum við upplýsingar um að [hústökumanninum] hefði verið skutlað upp á sjúkrahús af starfsmanni hjá bænum og þá brugðumst við skjótt við og fórum í húsið og læstum því. Svo hann komst ekkert inn aftur þar sem ég var búinn að skipta um lása,“ lýsir Þorsteinn í samtali við mbl.is.

Þegar maðurinn kom svo aftur að læstu húsinu leitaði hann til lögreglunar í bænum.

„Ég veit ekki hvað hann ætlaði að fá þá til að gera en þeir og félagsmálayfirvöld komu honum bara undir sinn verndarvæng og komu honum fyrir á gistiheimili,“ segir Þorsteinn og bætir við:

„Þá tók ég bara til og kom dótinu hans út og þeir komu og sóttu það fyrir hann.“

Ætlaðist til að þeir myndu búa saman alla ævi

Þorsteinn hefur nýtt helgina í að þrífa húsið en til stendur að afhenda það nýjum eigendum á morgun.

Athyglin sem málið hefur fengið hefur komið Þorsteini á óvart en hann segir þó að um sé að ræða mjög „furðulega uppákomu“ og óþægilegt þegar fólk misnoti góðmennsku á slíkan hátt.

„Ég ætlaðist nú bara til þess að hann myndi nota þann möguleika og þann tíma, að vera kominn í eitthvað almennilegt skjól upp á að geta búið sér til einhverja framtíð síðar.

Það var ekkert annað sem stóð fyrir mér en að reyna að aðstoða manninn eftir bestu getu en hann var ekkert að sinna því,“ segir Þorsteinn að lokum og bætir við:

„Hann ætlaðist bara til þess að maður myndi búa þarna með honum alla ævi, ég var farinn að halda það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert