Andlát: Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari

Hilmar Bragi Jónsson.
Hilmar Bragi Jónsson. mbl.is/Styrmir Kári

Hilmar Bragi Jónsson matreiðslumeistari er fallinn frá, 81 árs að aldri. Hilmar starfaði m.a. sem matreiðslumaður Vigdísar Finnbogadóttur og var einn ötulasti talsmaður íslensks fisks á bandarískum markaði.

Veitingageirinn.is greinir frá andlátinu en þar segir að Hilmar hafi látist í morgun á Torveieja á Spáni. Hann hafi legið á spítala frá 3. ágúst vegna sýkingar í hjarta, tengdri hjartaaðgerð sem hann fór í fyrir um 25 árum.

Hilmar var einn af stofnendum Matreiðsluskólans í Hafnarfirði, tímaritsins Gestgjafans, starfaði sem matreiðslumaður Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta og starfaði sem varaforseti Alheimssamtaka Matreiðslumanna.

Kokkaferillinn hófst í Austurbænum

Veitingageirinn.is birti æviágrip Hilmars á vef sínum. Þar kemur fram að Hilmar hafi fæðst á Ísafirði þann 25. október 1942. Foreldrar hans voru Jón Jónsson, skáld og söngvari frá Ljárskógum í Dölum, og Jónína Kristín Kristjánsdóttir. Faðir Hilmars lést þegar Hilmar var aðeins um tveggja vetra.

Matreiðsluferill Hilmars hófst á unglingsárunum þegar frænda hans vantaði kokkalærling á Matstofu Austurbæjar. Hann sótti um og fékk starfið.

Árið 1962 hóf hann kokkanám og fékk síðan starf á glænýjum veitingastað á Hótel Loftleiðum.

Opinber matreiðslumaður Vigdísar

Hann varð seinna ferðakokkur og hélt landkynningar erlendis þar sem boðið var upp á íslenskan matseðil. Hann var afar vinsæll ferðakokkur og þegar Frú Vigdís Finnbogadóttir hélt 450 manna veislu í Kaupmannahöfn fyrir vildarvini Íslands og var boðið var hann fenginn til að sjá um matseðilinn.

Þetta varð til þess að Hilmar varð opinber matreiðslumaður Vigdísar í 12 ár, þar sem hann eldaði alls ofan í ellefu þjóðhöfðingja, suma tvisvar.

Á þeim árum stofnuðu hann og Elín Káradóttir, eiginkona Hilmars sem var einnig ráðskona á Bessastöðum, tímaritið Gestgjafann. Seinna stofnuðu hjónin Matreiðsluskólann Okkar í Hafnarfirði, sem lokaði tveimur árum síðar þar sem þau töpuðu aleigunni.

Í fyrsta matreiðslulandsliði Íslands

Hilmar er einn af stofnendum Klúbbs Matreiðslumeistara og var í fyrsta landsliði matreiðslumanna á Íslandi sem tók þátt í matreiðslukeppni í Kaupmannahöfn, þar sem Ísland vann gull og silfur.

Hilmar var síðar matreiðslumaður hjá sjávarafurðadeild Sambandsins í Bandaríkjunum og vann hjá þeim í 22 ár. Þar ferðaðist hann um öll Bandaríkin og hitti yfirkokka, hélt fiskinámskeið fyrir kokka og sölumenn allt til að kynna íslenskan fisk. Þannig hefur hann verið þekktur sem einn helsti talsmaður íslenska fisksins í Bandaríkjunum.

2008 var Hilmar gerður að varaforseta Alheimssamtaka Matreiðslumanna og var það í 5 ár.

Elín veiktist af Parkinsons og féll frá árið 2016 en þá voru þau flutt aftur til Íslands. Árið 2018 flutti Hilmar til Spánar og bjó þar með vinkonu sinni Þorbjörgu Garðarsdóttur úr Njarðvík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert