Þungt er yfir kornbændum á Norðurlandi en tíðarfar hefur ekki verið hagstætt til kornræktar í sumar. Bessi Freyr Vésteinsson, bóndi í Hofsstaðaseli í Skagafirði og landbúnaðarverktaki, segir menn þó reyna að bera sig vel. Bændur reyni að stunda kornrækt á besta landinu þar sem veðurfar hefur hvað minnst áhrif.
Ekki sé gott að segja til um það akkúrat á þessari stundu hvernig veðrið sem gengur nú yfir komi til með að fara með uppskeruna en hann viti af bændum sem ná ekki sínu grænfóðri. Tún séu orðin of blaut og ekki verði hægt að ljúka heyskap. Þó sé staðan æði misjöfn og heyskap sé lokið víða.
„Ég held þó að það sé alveg ljóst að þetta verður með lélegri kornárum hér í Skagafirði.“
Í Skagafirði er kornþresking ekki hafin að sögn Bessa sem ræktar sjálfur á um 30 hekturum. Hann segir hvorki hafa viðrað til þreskingar sökum ótíðar né séu allir akrarnir tilbúnir til þreskingar. „Um helmingur akranna okkar er reyndar tilbúinn og við munum reyna þreskingu á næstu dögum á því sem bíður ekki til batnaðar úr þessu.“
Þá segir Bessi fuglinn sestan að við kornakrana og því sé mikilvægt að nýta næsta glugga. Þeir akrar sem eru í verra ásigkomulagi verða slegnir og rúllað af þeim í rúllubagga eins og hvert annað grænfóður að hans sögn.
Snjóað hefur niður í miðjar hlíðar í Skagafirði en ekki niður á akrana sem liggja lágt yfir sjávarmáli. Bessi segir að þó hafi þurft að eiga við bæði bleytu og hvassviðri sem geti valdið því að gott korn tapist, að öxin brotni niður eða kornið leggist, „en maður veit það ekki svona í miðjum storminum. Kornakrarnir eru ekki komnir í hættu því kornþroskinn kom það seint, kornið er ekki orðið það þungt í sér.“
Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.