Laugardalslaugin verður lokuð næstu tvær vikur og segir forstöðumaður laugarinnar, Drífa Magnúsdóttir, að verið sé að fara í framhald á þeirri vinnu sem hófst í fyrra þegar laugin var lokuð í rúmar þrjár vikur og að nú sé vitað betur hverju gengið sé að.
Laugin verður lokuð til og með 24. september, en meðal annars á að vinna að endurnýjun og viðhaldi á kýraugum sem hófst í fyrra.
Farið var í viðamiklar framkvæmdir í fyrra. Upphafleg tímaáætlun þá gerði ráð fyrir tveggja vikna lokun, en vegna ófyrirséðra viðgerða sem ljóst var að þurfti einnig að ráðast í var tímaramminn framlengdur í rúmlega þrjár vikur. Þá þurfti einnig að loka lauginni í stuttan tíma í vor vegna bilunar sem kom upp.
Spurð afhverju viðgerðin sem verið er að fara í núna hafi ekki verið kláruð í fyrra segir Drífa að einhverjir hnökrar hafi þá komið upp. Nú séu hins vegar sömu aðilar að vinna að verkefninu og sé hún því bjartsýn á að það muni ganga betur.
„Við stefnum á að gera þetta á tveimur vikum núna, þó þetta sé svona svipað verkefni og við gerðum í fyrra. Við erum öðruvísi undirbúin fyrir það núna og þeir vita betur hvað tekur á móti þeim þegar búið er að tæma,“ segir forstöðumaðurinn.
Aðspurð segir hún að vonandi þurfi ekki að loka lauginni aftur á næsta ári í svona langan tíma.
„En eins og almennt gerist alltaf, í held ég flestum laugum á landinu, þá er alltaf einu sinni á ári lokun. Það er tæmt og botninn er þrifinn. Það hefur svo sem ekki verið gert á hverju ári hingað til þannig að við erum ekki með nein áform um lokun á næsta ári enn sem komið er allavega,“ segir Drífa og bætir við.
„En þetta er bara fyrst og fremst að klára þetta verkefni. Svo í leiðinni auðvitað þegar það er lokað og við erum að tæma útisvæðið þá er ýmislegt eins og þrif sem er einnig klárað.“
Segir hún að innilaugin verði þó enn opinn fyrir skólasund og sundæfingar og því verði áfram starfsemi í húsinu og tekur hún jafnframt fram að hún sé bjartsýn á að laugin muni opna á ný eftir tvær vikur.