Óleiðréttur launamunur eykst á milli ára

Frá kvennaverkfallinu á síðasta ári.
Frá kvennaverkfallinu á síðasta ári.

Óleiðréttur launamunur karla og kvenna var 9,3% árið 2023 en hann jókst um 0,2 prósentustig frá árinu á undan.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að launamunur hafi aukist eftir aldri en munurinn mældist 0,6% meðal þeirra sem eru 24 ára og yngri, 9,5% í aldurshópnum 35-44 og 14,9% í aldurshópnum 55-64 ára.

Launamunur var mikill eftir atvinnugreinum. Þannig mældist 25,9% munur í fjármála- og vátryggingastarfsemi en um 1,1% í atvinnugreininni fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun.

Niðurstöðurnar byggja á gögnum launarannsóknar Hagstofu Íslands.

Fleiri konur starfa hjá hinu opinbera

Þá var óleiðréttur munur á tímakaupi karla og kvenna eftir starfsstétt á bilinu -2,4% hjá skrifstofufólki og upp í 22,9% á meðal tækna og sérmenntaðs starfsfólks.

Í tilkynningu Hagstofunnar segir að ein helsta skýringin sé kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar en samkvæmt rannsókn frá árinu 2021 störfuðu um 43% kvenna á vinnumarkaði hjá hinu opinbera árið 2019 en aðeins 15% karla.

Árið 2023 var launamunur 13,9% á almennum vinnumarkaði, 8,0% hjá starfsfólki ríkisins og 4,3% á meðal starfsfólks sveitarfélaga.

Konur með lægra tímakaup

Hlutfallslega fleiri konur eru með lægra tímakaup en karlar. Þetta sýnir launadreifing eftir kyni fyrir allan vinnumarkaðinn.

Hátt hlutfall yfirvinnustunda hefur áhrif til hækkunar á tímakaupi þar sem yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en dagvinnustund. Karlar vinna að jafnaði meiri yfirvinnu en konur sem skýrir muninn að hluta. Óleiðréttur launamunur er samanburður á meðaltali og þar sem laun eru almennt ekki normaldreifð þá hafa útgildi (há laun) áhrif til hækkunar á meðaltali. Þar sem algengara er að karlar séu með laun í hæsta launastigi getur það því ýkt launamuninn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert