Náttúruverndarsamtök kæra virkjunarleyfið

Segja samtökin vindorkuverið skerða gildi ferðalaga almennings um hálendið.
Segja samtökin vindorkuverið skerða gildi ferðalaga almennings um hálendið. mbl.is/Sigurður Bogi

Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið hafa kært virkjunarleyfi Orkustofnunar vegna Búrfellslundar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Þetta kemur fram í tilkynningu samtakanna.

Að því er fram kemur í tilkynningunni telja samtökin að virkjunarkosturinn hefði aldrei átt að rata í virkjanaflokk sökum gildis svæðisins fyrir útivist ferðamanna sem heimsækja hálendið. Segja þau svæðið í flokki verðmætustu óbyggða Evrópu.

Segja þau vindorkuverið skerða gildi ferðalaga almennings um hálendið og hafa áhrif á upplifun ferðamanna langt út fyrir virkjanasvæðið sjálft, eða yfir alla Sprengisandsleið, Fjallabak og önnur hálendissvæði.

Segja rökstuðninginn vafasaman

Í tilkynningunni segir að ríkisstjórnarmeirihlutinn í umhverfis- og samgöngunefnd hafi árið 2022 gengið þvert á vísindaleg rök verkefnisstjórnar rammaáætlunar „með vægast sagt vafasömum rökstuðningi“ þegar Búrfellslundur var færður úr biðflokki yfir í virkjunarflokk.

Fjölmargir efnis- og formannmarkar eru á ákvörðun Orkustofnunar um að veita virkjunarleyfið. Ekki var litið til meginreglna náttúruverndarlaga, laga um stjórn vatnamála, sérstakrar verndar eldhrauna og landsskipulagsstefnu, svo nokkuð sé nefnt. Margvísleg lagaákvæði tengd umhverfismati framkvæmdarinnar voru brotin, enginn valkostur við staðsetningu virkjunarinnar hefur verið metinn þrátt fyrir ítrekuð tilmæli Skipulagsstofnunar, ekki var lagt mat á stöðu óbyggðra víðerna eða áhrifa framkvæmdarinnar á þau. Þá var ekki litið til ósjálfbærni og niðurrifs spaða vindorkuversins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert