Rúmlega 13 milljarða kröfur

Húsnæði Skagans 3X er eign Grenja, stærsta kröfuhafans.
Húsnæði Skagans 3X er eign Grenja, stærsta kröfuhafans. mbl.is/Sigurður Bogi

Alls er lýst kröfum að fjárhæð 13,2 milljarðar króna í þrotabú Skagans 3X á Akranesi, en fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota 4. júlí sl. Það var stjórn félagsins sem óskaði eftir skiptunum.

Stærstur hluti krafnanna er almennar kröfur, en þær nema rúmlega 9,3 milljörðum króna. Stærstu kröfuhafarnir í þeim hópi eru fasteignafélagið Grenjar ehf. á Akranesi, en Skaginn 3X leigði húsnæði í eigu Grenja undir starfsemina.

Alls lýsa Grenjar sjö kröfum í þrotabúið og hljóða kröfur félagsins upp á rúmlega 4,4 milljarða. Grenjar voru áður eigendur Skagans 3X.

Forgangskröfur samtals 880 milljónir

Tvö önnur fyrirtæki lýsa háum almennum kröfum í þrotabúið, en það eru færeyska fiskvinnslufyrirtækið Varðin Pelagic P/F sem gerir kröfu upp á liðlega 1,6 milljarða og SFV11 Holding sem hélt á eignarhlut þýska félagsins Baader í Skaganum 3X sem keypti félagið af Grenjum árið 2021. Gerir SFV11 Holding kröfu upp á ríflega 1,1 milljarð.

Skiptastjóri tekur ekki afstöðu til almennra krafna í þrotabúið að sinni þar sem ljóst þykir að ekkert fáist greitt upp í þær.

Einu veðkröfurnar í þrotabúið eru frá Íslandsbanka sem gerir kröfur upp á rúmlega 2,9 milljarða samtals og er stærsta einstaka krafa bankans að fjárhæð 2,545 milljarðar.

Forgangskröfur eru samtals liðlega 880 milljónir, en slíkum kröfum að fjárhæð rúmlega 600 milljónir hefur verið hafnað að sinni.

Frekari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert