Niðurskurðarstefna bitnar einungis á launafólki

Clara Mattei, prófessor í hagfræði, heldur erindi á málþingi VR.
Clara Mattei, prófessor í hagfræði, heldur erindi á málþingi VR. Ljósmynd/Carlos Zaya

„Það sem ég kem á framfæri í verkum mínum, með því að nota söguleg gögn, er að niðurskurður er alls ekki góður til að leysa verðbólgu eða laga fjárhagsstöðu ríkissjóðs, heldur til að viðhalda eða auka við stéttaskiptingu sem aftur heldur hinum almenna launamanni niðri.“

Þetta segir Clara Mattei, prófessor í hagfræði og verðandi forstöðumaður Miðstöðvar um framsækna hagfræði við háskólann í Tulsa, í viðtali við mbl.is. Mattei er ein þeirra sem heldur erindi á málþingi VR um niðurskurðarstefnu á morgun, þriðjudaginn 17. september.

Á heimasíðu VR segir að í ár séu 100 ár síðan niðurskurðarstefna var fyrst innleidd á Íslandi.

Mattei skrifaði bókina The Capital Order: How Economists Invented Austerity and Paved the Way to Fascism, en bókin hefur hlotið gríðargóðar viðtökur og var m.a. valin sem ein af tíu bestu hagfræðibókum ársins 2022 af Financial Times.

Birtingarmyndir niðurskurðarstefnu eru á ýmsa vegu, samkvæmt Mattei, m.a. harkalegur niðurskurður á ríkisútgjöldum, einkavæðing og vanræksla á uppbyggingu innviða. Þá nefnir hún einnig að niðurskurður birtist í hávaxtastefnu sem viðbragð við verðbólgu og eins í launalækkunum og að draga úr verkalýðshreyfingu.

Hún vill meina að almennt launafólk beri kostnað af efnahagsástandi á hverjum tíma sem sýnir sig í lækkun raunlauna, hærri vaxtabyrði og niðurskurði á opinberri þjónustu. Af þessu leiðir að ójöfnuður eykst.

„Stjórnvöld eyða miklum peningum en þeim er varið í fjármögnun sem styður við bakið á einkafjárfestum, stjórnendum og græna hagkerfinu,“ segir Mattei og bætir við að í grundvallaratriðum séu vermætin færð frá launafólkinu t.d. með skattlagningu á sama tíma og ríkið sólundar peningum.

Mattei leggur áherslu á að styðja innanlands aðgerðir og staðbundna starfsemi og að það geti skapað bæði efnahagslega og andlega velmegun í samfélaginu.

Fókusinn þurfi að vera réttur og fjármagnið þurfi að rata á rétta staði.

Málþingið verður haldið á morgun, 17. september, í húsakynnum VR á milli klukkan 14:00 og 16:00. Sjá nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert