Segja Vestfjarðagöng dauðagildru

Afar litlu munaði að rútan hefði farið að loga í …
Afar litlu munaði að rútan hefði farið að loga í Vest­fjarðagöng­unum.

Efnt hefur hefur verið til undirskriftalista þar sem þess er krafist að Ísafjarðarbær og ríkið taki það alvarlega hversu mikil hætta fylgi því að keyra í Vestfjarðagöngum.

Eru göngin m.a. kölluð dauðagildra. Þetta kemur í kjölfar rútubruna á föstudag en mjög litlu mátti muna að eldur kviknaði í rútunni í göngunum þar sem tveir afleggjarar eru einbreiðir.

Ólöf Birna Jensen, fulltrúi hverfisráðs Súgandafjarðar, er ábyrgðarmaður listans og segir í samtali við Morgunblaðið að hugsanlega sé fyrirhugað að gera göngin tvíbreið til Flateyrar en hins vegar ekki til Suðureyrar. Það hefur íbúum bæjarfélagsins ekki fundist nógu öruggt og þá sérstaklega í ljósi rútubrunans síðasta föstudag.

„Hvað ef þetta hefði gerst í göngunum? Það getur enginn snúið við á einbreiða kaflanum nema litlir fólksbílar. Þessar rútur, þær voru fjórar ásamt þessari sem kviknaði í. Við erum að tala um tvö hundruð manns sem hefðu verið fastir í göngunum og ekki getað snúið við,“ segir Ólöf.

Segir klæðninguna eldfima

Á undirskriftalistanum er einnig varað við klæðningu í göngunum. Nefnir Ólöf að hún sjálf hafi ekki áreiðanlegar heimildir fyrir því en þeir sem til þekki staðhæfi að klæðning ganganna sé mjög eldfim. Ýtir það undir alvöru málsins þegar hugsað er um hve litlu munaði að eldur kviknaði í göngunum þar sem stór hluti þeirra er einbreiður.

„Ef þessi rútubruni hefði orðið nokkrum mínútum fyrr, og þá í miðjum göngunum, hefði komið mikill reykur. Eldurinn hefði læst sig í klæðninguna. Mér sýnist að allt þetta fólk sem var í bifreiðunum þarna á eftir hefði dáið inni í göngunum,“ segir Ólöf.

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert