Vakinn, klæddur og fluttur upp á flugvöll

Barnaspítali Hringsins. Þangað hefur Yazan nú verið fluttur.
Barnaspítali Hringsins. Þangað hefur Yazan nú verið fluttur. mbl.is/Karítas

Rétt fyrir klukkan 23 í gærkvöldi mætti sjö til átta manna hópur, sem samanstóð af lögreglumönnum og starfsmönnum hins opinbera ásamt túlki, til að sækja ellefu ára palestínska drenginn Yazan Tamimi í Rjóðrið.

Alls tók aðgerðin um 40 mínútur.

Þetta herma heimildir mbl.is.

Mun hópurinn hafa mætt í Rjóðrið, hjúkr­un­ar- og end­ur­hæf­ing­ar­deild Land­spít­ala fyr­ir lang­veik fötluð börn, þar sem lögreglan upplýsti heilbrigðisstarfsmenn um erindi sitt og fór svo og vakti Yazan.

Fór á hjólastól í bíl og svo skutlað í burtu

Eftir að Yazan var vakinn þurfti hann svo að klæða sig í föt.

„Og svo fer hann bara í hjólastólnum sínum í bíl sem var lagt fyrir utan og gat tekið við hjólastólum. Honum var ekið í burtu rétt fyrir miðnætti,“ segir heimildarmaðurinn, sem telur lækni hafa fylgt Yazan frá upphafi til enda, en þó ekki á vegum Landspítalans.

Yazan er með Duchenne-vöðvahrörnunarsjúk­dóm­inn.

Aftur á leiðinni á Landspítalann

Ekki liggja fyrir upplýsingar að svo stöddu um hvort að fjölskylda Yazans hafi verið með honum á spítalanum er náð var í hann.

Al­bert Björn Lúðvígs­son, lögmaður Yazans, seg­ist hafa rætt við for­eldra drengs­ins. Yazan er nú kominn á Barnaspítala Hringsins samkvæmt heimildum mbl.is.

Upphaflega átti Yazan að fara ásamt fjölskyldu sinni með flugi úr landi fyrr í morgun, eða kl. 8.25 til Barcelona að því er talið er.

Heimildir mbl.is herma að Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hafi fyrirskipað að hætt yrði flutning Yazans úr landi, eftir að beiðni þess efnis kom innan úr ríkisstjórninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert