Yazan á leið upp á spítala aftur

Yazan er nú sagður á leið á spítala aftur.
Yazan er nú sagður á leið á spítala aftur. Samsett mynd

Albert Björn Lúðvígsson, lögmaður ellefu ára palestínska drengsins Yazans Tamimi, segist hafa rætt við foreldra drengsins. Fjölskyldan sé nú á leið frá Keflavíkurflugvelli og á spítala í Reykjavík. 

Hann segir fregnirnar þó óstaðfestar.

Hann segir að hann hafi enn ekki fengið að ræða við fjölskylduna með aðstoð túlks og að lögreglan hafi ekki enn veitt honum upplýsingar um aðgerðirnar í nótt.

Vöktu Yazan á spítalanum

Íslensk yfirvöld vöktu Yazan seint í gærkvöldi þar sem hann lá á sjúkrarúmi í Rjóðrinu, hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítala fyrir langveik fötluð börn.

Var hann fluttur upp á Leifsstöð þar sem til stóð að vísa honum úr landi ásamt fjölskyldu sinni.

Yazan er með vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne.

Lögregla upplýsti Albert ekki um brottvísunina og hefur Albert aðeins fengið að ræða takmarkað við umbjóðendur sína og aldrei með aðstoð túlks. Frétti hann af brottvísuninni í gegnum réttindagæslumann fatlaðra en starfsfólk spítalans hafði upplýst hann um aðgerðir yfirvalda.

Að sögn Alberts segja foreldrarnir nú að Yazan sé á leið í Rjóðrið aftur.

Engu barni bjóðandi

Albert kveðst engar skýringar hafa fengið á aðgerðunum í gærkvöldi og nótt. Gerir hann ráð fyrir að fá skýringar á því í dag eða í vikunni.

Segir hann markmiðið sitt í dag að sjá til þess að ekki verði af brottvísuninni.

„Það kemur að því að einhverjir þurfi að útskýra hvers vegna ellefu ára gamall drengur var vakinn og látinn sitja í lokuðu herbergi um miðja nótt í Leifsstöð við aðstæður sem eru engu barni bjóðandi,“ segir Albert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert