Yazan vakinn á spítala og á leið úr landi

Til stendur að vísa Yazan úr landi í fyrramálið.
Til stendur að vísa Yazan úr landi í fyrramálið. Samsett mynd

Íslensk yfirvöld sóttu í kvöld Yazan Tamimi, ellefu ára gamlan dreng frá Palestínu með Duchenne-sjúkdóminn, í Rjóðrið, hjúkrunar- og endurhæfingardeild Landspítala fyrir langveik fötluð börn, þar sem hann lá sofandi.

Til stendur að flytja drenginn og fjölskyldu hans úr landi að morgni dags.

Þetta staðfestir Albert Lúðvígsson, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við mbl.is. Skyndimótmæli á vegum No Borders-samtakanna eru hafin á Keflavíkurflugvelli, þar sem brottvísuninni er mótmælt.

Lögregla neitar lögmanni um upplýsingar

Albert frétti af brottvísuninni um miðnætti. Starfsfólk spítalans hafði þá haft samband við réttindagæslumann fatlaðra og tilkynnt honum að lögregla hefði komið og sótt Yazan á spítalann.

Lögregla hefur neitað að veita Alberti upplýsingar um málið. Hefur hún ekki einu sinni staðfest við hann að Yazan og fjölskylda hans hafi verið tekin og að þeim verði vísað burt úr landi í dag.

Hann hefur því ekki fengið upplýsingar frá yfirvöldum um til hvaða lands eigi að flytja Yazan.

Hefur fjölskyldan ekki haft færi á að ræða við Albert með aðstoð túlks.

Forkastanleg vinnubrögð

Albert segir enga nauðsyn kalla á þessar aðgerðir lögreglu, að Yazan, ellefu ára drengur með vöðvarýrnunarsjúkdóm, sé vakinn þar sem hann liggur sofandi á spítala og verði látinn bíða við erfiðar aðstæður í Leifsstöð.

Hann segir þetta harðneskjulega framkvæmd og forkastanleg vinnubrögð.

Þá segir hann það á gráu svæði að honum sé að mestu neitaður aðgangur að sínum skjólstæðingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert